Samfélagsmál COVID-19

|

Rúmlega þriðjungur landsmanna starfar við breytt vinnufyrirkomulag sökum útbreiðslu kórónaveirunnar og 15% sögðust eingöngu vinna að heiman þessa dagana. Þetta kemur fram í nýrri kórónavíruskönnun MMR. Af þeim sem kváðust í vinnu og tóku afstöðu til spurningarinnar sögðu 62% vinnufyrirkomulag sitt óbreytt þrátt fyrir útbreiðslu kórónaveirunnar, 23% kváðust vinna að hluta til að heiman þessa dagana og 15% kváðust eingöngu vinna að heiman sökum útbreiðslu veirunnar.

2003 COVID heima 1Spurt var: „Vinnur þú að heiman þessa dagana sökum útbreiðslu kórónaveirunnar?“.
Svarmöguleikar voru: „Nei, vinnufyrirkomulag mitt er óbreytt (ég vinn jafn mikið/lítið að heiman og ég gerði áður)“,
„Já, ég vinn að hluta til að heiman sökum kórónaveirunnar“, „Já, ég vinn eingöngu að heiman sökum kórónaveirunnar, „Á ekki við / er ekki í vinnu“ og „Vil ekki svara“.
Svarhlutfall var 76,0% en 21,4% svöruðu að spurningin ætti ekki við eða að þau væru ekki í vinnu og 2,5% vildu ekki taka afstöðu.

Munur eftir lýðfræðihópum

Karlar (64%) reyndust líklegri en konur (59%) til að segjast starfa við óbreytt vinnufyrirkomulag en konur reyndust líklegri til að vinna að heiman að hluta til (25%) eða að öllu leyti (16%) heldur en karlar (22% að hluta til, 13% að öllu leyti).

Svarendur 50-67 ára (73%) reyndust líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast starfa við óbreytt vinnufyrirkomulag en svarendur á aldrinum 30-49 ára ólíklegastir (59%). Svarendur 30-49 ára (33%) reyndust hins vegar líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast vinna að hluta til að heiman vegna veirunnar. Þá reyndust svarendur 18-29 ára (23%) og 68 ára og eldri (19%) líklegri til að segjast vinna eingöngu að heiman sökum útbreiðslu kórónuveirunnar heldur en þau 30-49 ára (13%) og 50-67 ára (10%).

Svarendur af landsbyggðinni (76%) reyndust líklegri en þeir af höfuðborgarsvæðinu (55%) til að segja vinnufyrirkomulag sitt óbreytt en svarendur af höfuðborgarsvæðinu reyndust bæði líklegri til að segjast vinna að heiman að hluta til (28%) eða að öllu leyti (18%) heldur en þeir af landsbyggðinni (16% að hluta, 8% að öllu leyti).

2003 COVID heima x1

Nokkurn mun var að sjá á vinnufyrirkomulagi svarenda eftir starfsgreinum en vélafólk og ófaglærðir (99%) og bændur og sjómenn (94%) reyndust líklegastir allra til að segjast starfa við óbreytt vinnufyrirkomulag en sérfræðingar ólíklegastir (36%). Sérfræðingar (45%) reyndust hins vegar líklegastir til að segjast vinna að hluta til að heiman sökum kórónaveirunnar en næst á eftir komu tæknar og skrifstofufólk (27%) og stjórnendur og æðstu embættismenn (24%). Sérfræðingar (19%) reyndust einnig líklegri en svarendur úr öðrum starfsgreinum til að segjast eingögnu vinna að heiman þessa dagana.

2003 COVID heima x2

Ef litið er til stjórnmálaskoðana svarenda má sjá að svörun reyndist nokkuð breytileg á milli stuðningsfólks stjórnmálaflokkana. Stuðningsfólk Framsóknar (78%), Miðflokks (69%) og Sjálfstæðisflokksins (65%) reyndist líklegra en aðrir til að segja vinnufyrirkomulag sitt vera með óbreyttum hætti en stuðningsfólk Vinstri-grænna (41%) ólíklegast. Stuðningsfólk Vinstri-grænna reyndist hins vegar líklegra en aðrir til að segjast vinna að hluta til að heiman þessa dagana en stuðningsfólk Miðflokks (16%) og Framsóknar (17%) ólíklegast. Þá reyndist stuðningsfólk Framsóknar (4%) ólíklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segjast eingöngu vinna að heiman þessa dagana sökum útbreiðslu kórónaveirunnar.

2003 COVID heima x3

Einnig var spurt um ýmis áhyggjuefni svarenda í tengslum við útbreiðslu kórónaveirunnar, svo sem áhyggjum af áhrifum á íslenskan efnahag, af því að smitast sjálf(ur) og af mögulegu tjóni á fjárhag eða heilsufari í kjölfar veikinda af völdum kórónaveirunnar. Lítill munur reyndist að mestu á vinnufyrirkomulagi svarenda eftir áhyggjum þeirra en í ljós þó kom að þeir svarendur sem kváðust hafa miklar áhyggjur af mögulegu heilsutjóni sínu af völdum útbreiðslu kórónaveirunnar reyndust líklegastir allra til að segjast vinna eingöngu að heiman (29%) og ólíklegastir til að segjast vinna að hluta til að heiman (11%). Þeir svarendur sem kváðust hafa frekar miklar áhyggjur af heilsutjóni reyndust hins vegar líklegastir allra til að segjast vinna að hluta til að heiman (31%) en lítill munur reyndist á hlutfalli þeirra sem kvaðst starfa við óbreytt vinnufyrirkomulag eftir áhyggjum á heilsutjóni.

2003 COVID heima x4

 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 1.081 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 18. til 20. mars 2020