Dægurmál

|

Landsmenn eru almennt ánægðir með nútímalífið en nær fimmtungur minnist lífsins á níunda og tíunda áratug síðustu aldar sem gömlu góðu daganna. Skiptar skoðanir eru á því hvort að lífið í dag sé betra en á fyrsta áratug 21. aldarinnar en lífið fyrir 1950 heillar fáa. Þetta kemur fram í lífsgæðakönnun MMR.

Þá má einnig sjá að samanburður verður almennt erfiðari því lengra sem litið er aftur í tímann en á milli 25-29% svarenda sögðust ekki vita hvort fólk hafi það almennt betri í dag heldur en á þeim tímabilum fyrir árið 1980 sem spurt var um.

1907 Gömlu dagarnirSpurt var: „Horft áratugi og aldir aftur í tímann, telur þú að líf fólks hafi almennt verið betra þá en það er nú til dags, eða betra nú til dags en það var þá?“.
Spurningin sneri að eftirfarandi spurningaliðum: „2000-2009“, „1990-1999“, „1980-1989“, „1970-1979“, „1960-1969“, „1950-1959“, „1940-1949“, „1930-1939“,
„1920-1929“, „1910-1919“, „1900-1909“, „Á nítjándu öld (1800-1899)“, „Á átjándu öld (1700-1799)“ og „Á sautjándu öld (1600-1699)“.
Svarmöguleikar voru: „Lífið var betra ÞÁ“, „Um það bil eins og nú“, „Lífið er betra NÚ“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
 

Svarendur virtust nokkuð sammála um að lífið nú til dags væri ekki of ólíkt lífinu á fyrsta áratug 21. aldarinnar en 38% sögðu lífið betra nú, 14% sögðu lífið betra þá og 35% segja lífið um það bil eins. Þá vekur athygli að nær fimmti hver svarandi kvaðst telja að lífið hafi verið betra á níunda (17%) og tíunda (18%) áratug síðustu aldar en hlutfall þeirra sem sögðu lífið eins þá og nú til dags var hærra fyrir tíunda áratuginn (23%) heldur en þann níunda (16%).

Þá er ljóst að fortíðarþrá Íslendinga nær almennt ekki marga áratugi aftur í tímann en hlutfall þeirra sem sögðu lífið betra þá fór minnkandi frá níunda áratugnum og aftur til þess fimmta (2%). Áhugavert er svo að sjá að lítill munur var á afstöðu svarenda fyrir áratugi og aldir frá fjórða áratug 20. aldar og aftur en um 70% svarenda sögðust telja tímana betri nú heldur en þá og tæplega 30% sögðust ekki viss, óháð tímabilum.


Tíundi áratugurinn heillar yngri kynslóðirnar

Lítill munur reyndist á hlutfalli þeirra sem kvaðst telja lífið betra á árunum 2000-2009 eftir aldurshópum. Hins vegar voru svarendur á aldrinum 18-29 ára (24%) líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að telja lífið á tíunda áratugnum betra en nú til dags og fór hlutfallið minnkandi með auknum aldri. Þá féll níundi áratugurinn svo til jafnt í kramið hjá svarendum allra aldurshópa en lítill munur reyndist á hlutfalli þeirra sem kváðu lífið betra þá eftir aldri.

Svarendur elsta aldurshópsins (68 ára og eldri) reyndust líklegri heldur en svarendur annarra aldurshópa til að telja tímana betri frá seinna stríði og fram að níunda áratugnum en 17% þeirra kváðust telja að lífið hafi verið betra á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar og 12% kváðust telja að það hafi verið betra á þeim fimmta og sjötta.

1907 Gömlu dagarnir 3

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 964 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 19. til 24. júlí 2019