Nærri þrír af hverjum fjórum (74%) telja aðstæður á vinnumarkaði vera með þeim hætti að réttlætanlegt sé fyrir ákveðnar stafsstéttir að beita verkfalli til að ýta á um bætt starfskjör og meirihluti (59%) er tilbúinn að taka þátt í verkfalli til að bæta starfskjör sín og/eða annarra. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar MMR sem framkvæmd var dagana 15.-21. nóvember 2018.
Spurt var: „Telur þú að aðstæður á vinnumarkaði séu með þeim hætti að réttlætanlegt sé fyrir ákveðnar
starfsstéttir að beita verkfalli á næstu misserum til að ýta á um bætt starfskjör?“
Svarmöguleikar voru: „Já - verkföll eru réttlætanleg“, „Nei - verkföll eru ekki réttlætanleg“, „Veit ekki“ og „Vil ekki svara“.
Samtals tóku 83,6% afstöðu til spurningarinnar.
Alls kváðust 13% svarenda óvissir um hvort að verkföll væru réttlætanleg aðferð til að ýta á um bætt starfskjör. Þá kváðu 15% spurninguna um hvort þau væru tilbúin að taka þátt í verkfalli til að bæta starfskjör sín ekki eiga við aðstæður sínar á vinnumarkaði.
Spurt var: „Værir þú tilbúin(n) að taka þátt í verkfalli á næstu misserum í þeim tilgangi að bæta starfskjör þín og/eða annarra?“
Svarmöguleikar voru: „Já“, „Nei“, „Á ekki við - er ekki útivinnandi“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 72,5% afstöðu til spurningarinnar.
Munur eftir lýðfræðihópum
Konur (81%) reyndust líklegri en karlar (68%) til að segja aðstæður á vinnumarkaði vera með þeim hætti að réttlætanlegt sé fyrir ákveðnar starfsstéttir að beita verkfalli á næstu misserum til að ýta á um bætt starfskjör. Jákvæðni gagnvart réttlætanleika verkfalla fór minnkandi með auknum aldri en 84% svarenda á aldrinum 18-29 ára sagði aðstæður með þeim hætti að verkföll væru réttlætanleg, samanborið við 75% þeirra 30-49 ára, 70% þeirra 50-67 ára og 56% þeirra 68 ára og eldri.
Svarendur á landsbyggðinni (77%) reyndust líklegri en íbúar höfuðborgarsvæðisins (70%) til að segjast telja verkföll réttlætanleg. Þá voru svarendur sem lokið höfðu skólagöngu sinni eftir grunnskólanám (81%) líklegri en aðrir til að telja verkföll réttlætanleg miðað við aðstæður á vinnumarkaði. Stjórnendur og æðstu embættismenn reyndust líklegastir allra starfsstétta til að vera mótfallin verkfallsaðgerðum en einungis 37% þeirra sögðu þau réttlætanleg í kjarabaráttu starfsstétta. Námsmenn reyndust hins vegar líklegastir til að vera fylgjandi eða 84%. Þá voru þeir tekjuhæstu (66%) ólíklegri en aðrir til að vera segja verkföll réttlætanleg.
Ef litið er til stjórnmálaskoðana má sjá að stuðningsfólk Flokks fólksins (97%) og Pírata (96%) reyndist líklegast til að segja verkföll réttlætanleg miðað við aðstæður á vinnumarkaði en stuðningsfólk Sjálfstæðisflokks (29%) og Miðflokks (61%) reyndust ólíklegust til að telja notkun verkfalla réttlætanlega í kjarabaráttu starfsstétta.
Konur (66%) voru einnig líklegri en karlar (54%) til að segjast tilbúnar til að taka þátt í verkfalli á næstu misserum til að bæta starfskjör sín og/eða annarra. Yngri svarendur voru líklegri til að segjast tilbúnir að taka þátt í verkfalli en þeir eldri en 65% svarenda í yngsta aldurshópi (18-29 ára) kváðust tilbúin að taka þátt í verkfalli, samanborið við 60% þeirra 30-49 ára, 54% þeirra 50-67 ára og 47% 68 ára og eldri.
Svarendur búsettir á landsbyggðinni (65%) reyndust líklegri til að segjast tilbúnir að taka þátt í verkfalli heldur en þeir búsettir á höfuðborgarsvæðinu (55%). Þegar litið er til stöðu á vinnumarkaði voru námsmenn (72%), bændur, sjó-, iðn-, véla og verkafólk (66%) og þjónustu-, skrifstofufólk og tæknar (64%) líklegastir allra til að segjast tilbúnir þátttöku í verkfallsaðgerðum en stjórnendur og æðstu embættismenn (21%) ólíklegastir. Fjöldi þeirra sem kváðust reiðubúin að fara í verkfall til að bæta starfskjör sín og annarra fór minnkandi með aukinni menntun og heimilistekjum. Þá minnkuðu líkur á að svarendur voru tilbúnir að ganga til verkfalls samhliða aukinni menntun og tekjum.
Stuðningsfólk Flokks fólksins (94%) voru líklegust allra til að segjast tilbúin að taka þátt í verkfalli til að bæta starfskjör sín og/eða annarra en stuðningsfólk Sjálfstæðisflokks (22%), Viðreisnar (44%) og Framsóknarflokks (49%) reyndust ólíklegust.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 928 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 15. til 21. nóvember 2018