Efnahagsmál Samfélagsmál

|

Þeim Íslendingum sem búa í leiguhúsnæði hefur fækkað um 4% síðastliðna 12 mánuði samkvæmt nýrri könnun MMR sem framkvæmd var 3.-9. október. Kváðust 14% svarenda búa í leiguhúsnæði, samanborið við 18% árið 2017. Aftur á móti fjölgaði þeim milli ára sem bjuggu í foreldrahúsum og voru nú 13%, samanborið við 10% árið áður. Þá kváðust nú 72% búa í eigin húsnæði en það er tæplega 2% aukning frá síðustu mælingu.

1810 Húsnæði 2 

Spurt var: „Í hvernig húsnæði býrð þú?“
Svarmöguleikar voru: „Eigin húsnæði“, „Leiguhúsnæði“, „Foreldrahúsum“, „Annað“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 99,7% afstöðu til spurningarinnar.

Leigjendur skynja meira öryggi

Samhliða því sem leigjendum hefur fækkað hafa á undanförnum misserum borist fréttir af kólnun í hagkerfinu og hægari hreyfingum á fasteignamarkaði. Þetta virðist hafa þau áhrif að leigjendur upplifi eftirstandandi leigusamninga sem tryggari. Að minnsta kosti mældist töluverð fjölgun í hópi þeirra sem töldu sig búa við mjög öruggan leigusamning frá því árinu áður, eða aukning um heil 18 prósentustig. Kváðust 48% búa í mjög öruggu leiguhúsnæði nú, samanborið við 30% árið áður. Á sama tíma fækkaði þeim um 14 prósentustig sem kváðust búa í frekar öruggu húsnæði - úr 51% í 37%.

Af þeim sem sögðust búa í leiguhúsnæði töldu 85% húsnæðið sem þau bjuggu í vera öruggt, sem er svipað hlutfall og í september 2013 þegar hlutfall þeirra sem töldu húsnæði sitt vera öruggt mældist 86%. Hlutfall þeirra sem töldu líklegt að þeir myndu missa húsnæði sitt mældist 15%, þar af 8% sem töldu það mjög líklegt og 7% sem töldu frekar líklegt að þeir misstu húsnæðið.

 

1810 Leiguhúsnæði 2

Spurt var: „Myndir þú segja að húsnæðið sem þú býrð í væri öruggt leiguhúsnæði eða telur þú líklegt að þú gætir misst það?“
Svarmöguleikar voru: „Tel húsnæðið mjög öruggt“, „Tel húsnæðið frekar öruggt“, „Tel frekar líklegt að ég gæti misst húsnæðið“,
„Tel mjög líklegt að ég missi húsnæðið“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Fjöldi svarenda sem sögðust búa í leiguhúsnæði var 132 eða rúm 14% af heildarfjölda svarenda.

 

Munur á stöðu fólks á húsnæðismarkaðnum eftir aldri og stjórnmálaskoðunum

Svarendur á aldrinum 18 - 29 ára reyndust líklegri en aðrir til að búa í leiguhúsnæði. Kváðust 30% þeirra á aldrinum 18 - 29 ára búa í leiguhúsnæði, samanborið við 3% þeirra 68 ára og eldri. Þá hefur fjöldi þeirra á aldrinum 18-29 ára sem býr í leiguhúsnæði minnkað um 13 prósentustig frá árinu 2016, þegar 43% svarenda aldurshópsins kváðust búa í leiguhúsnæði. Jafnframt kváðust nú 45% þeirra á aldrinum 18 - 29 ára búa í foreldrahúsum, samanborið við 37% í fyrra og 29% árið 2016.

1810 Leiguhúsnæði 1829 v2

Hlutfall þeirra sem bjuggu í eigin húsnæði fór hækkandi í takt við hækkandi laun. Kváðust 82% þeirra með heimilistekjur yfir milljón á mánuði búa í eigin húsnæði, samanborið við 40% þeirra með heimilistekjur undir 250 þúsund krónum.

Þegar litið var til stuðnings við stjórnmálaflokka kom í ljós að stuðningsfólk Flokks fólksins og Pírata var líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að búa í leiguhúsnæði, eða 39% stuðningsfólks Flokks fólksins og 23% Pírata.

1810 Húsnæði x

Eldri kannanir sama efnis:

MMR könnun 2017: Húsnæðismál og örugg leiga
MMR könnun 2016: Húsnæðismál og örugg leiga
MMR könnun 2015: Húsnæðismál og örugg leiga

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 921 einstaklingar, 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 3. til 9. október 2018