Dægurmál Tilveran

|

Tæp 71% landsmanna skoða næringarupplýsingar á pakkningum matvæla og flestir velta þá fyrir sér sykurinnihaldi. Þetta sýna niðurstöður könnunar MMR sem fram fór dagana 3. til 10. ágúst 2018. Kváðust 61% svarenda skoða upplýsingar um sykurinnihald, 34% kolvetni, 32% orku eða hitaeiningar, 27% fitu, 23% prótein, 17% salt og 17% mettaða fitu. Þá kváðust 10% svarenda skoða aðrar næringarupplýsingar en 29% sögðust ekki skoða neinar næringarupplýsingar á pakkningum matvæla.

1808 NæringarupplýsingarSpurt var: „Hverjar af eftirfarandi næringarupplýsingum skoðar þú á pakkningum þeirra matvara sem þú kaupir?“
Svarmöguleikar voru: „Orka/ hitaeiningar (kj eða kcal)“, „Prótein“, „Fita“, „Mettuð fita“, „Kolvetni“, „Sykur“, „Salt“,
„Ég skoða aðrar næringarupplýsingar“, „Ég skoða ekki næringarupplýsingar á matvörupakkningum“ og „Veit ekki/ vil ekki svara“.
Samtals tóku 95,6% afstöðu til spurningarinnar.
 

Munur eftir lýðfræðihópum

Konur reyndust duglegar við að fylgjast með næringarupplýsingum þeirra matvæla sem þær kaupa en rúm 80% þeirra sögðust skoða einhverjar næringarupplýsingar, samanborið við tæp 62% karla. Bæði kynin sögðust helst skoða upplýsingar um innihald sykurs (70% kvenna og 53% karla), kolvetna (40% kvenna og 28% karla) og hitaeininga (39% kvenna og 26% karla).

Svarendur í yngsta aldurshópnum (18-29 ára) voru líklegust allra aldurshópa til að skoða upplýsingar um innihald kolvetna (45%), orku eða hitaeiningar (44%) og próteins (40%) í matvörum en þau 68 ára og eldri voru líklegri til að skoða upplýsingar um innihald salts (34%) og mettaðrar fitu (26%) en svarendur í öðrum aldurshópum. Þá voru svarendur á aldrinum 50-67 ára líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast ekki skoða næringarupplýsingar (38%).

Íbúar höfuðborgarsvæðisins (74%) reyndust líklegri til að skoða næringarupplýsingar á umbúðum matvæla heldur en svarendur búsettir á landsbyggðinni (65%) en mestan mun mátti sjá á hlutfalli þeirra sem sögðust skoða upplýsingar um innihald orku/hitaeininga (35% íbúa höfuðborgarsvæðisins; 27% íbúa landsbyggðarinnar) og próteins (25% íbúa höfuðborgarsvæðisins; 19% íbúa landsbyggðarinnar). Þá reyndust háskólamenntaðir (78%) líklegri til að skoða næringarupplýsingar heldur en þeir með framhalds- (72%) eða grunnskólamenntun (61%).

Þegar litið er til stjórnmálaskoðana má sjá að stuðningsfólk Viðreisnar (88%) og Flokks fólksins (82%) var líklegast til að segjast skoða næringarupplýsingar á matvörupakkningum. Stuðningsfólk Viðreisnar reyndist líklegast allra til að skoða upplýsingar um sykur- (79%) og kolvetnisinnihald (44%), stuðningsfólk Pírata kvaðst mest allra skoða upplýsingar um orku/hitaeiningar (51%), fitu (35%) og prótein (36%) og stuðningsfólk Vinstri-grænna var líklegast til að rýna í upplýsingar um innihald salts (30%) og mettaðrar fitu (28%). Þá var stuðningsfólk Flokks fólksins líklegast allra til að segjast skoða aðrar næringarupplýsingar á pakkningum matvæla (18%) en stuðningsfólk Miðflokksins var líklegast allra til að segjast ekki skoða næringarupplýsingar (48%).

 

1808 Næringarupplýsingar x

 

Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 957 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 3. ágúst til 10. ágúst 2018