Neytendamál

|

Þrátt fyrir að innleiðing á sjálfsafgreiðslukössunum geti mögulega haft í för með sér ýmsa kosti fyrir neytendur, svo sem auknum afgreiðsluhraða og lækkuðu vöruverði sökum minnkaðs launakostnaðar verslana (sem geta fækkað starfsfólki á hefðbundnum afgreiðslukössum), hafa verið skiptar skoðanir á ágæti hinna nýtilkomnu tækja.

Af því tilefni framkvæmdi MMR á dögunum könnun á viðhorfi landsmanna til umræddra sjálfsafgreiðslukassa og verða niðurstöðurnar að teljast jákvæðar fyrir framsækna verslunareigendur.

Samkvæmt könnuninni, sem fram fór dagana 3. til 10. ágúst 2018, mátti sjá að heil 63% landsmanna sögðust jákvæð gagnvart sjálfsafgreiðslukössum í matvöruverslunum en 30% sögðust mjög jákvæð. Þá kváðust 26% hvorki neikvæð né jákvæð en 11% voru neikvæð, þar af 4% mjög neikvæð.

1808 SjálfsafgreiðslaSpurt var: „Hversu jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) ert þú gagnvart sjálfsafgreiðslukössum í matvöruverslunum?“
Svarmöguleikar voru: „Mjög andvíg(ur)“, „Frekar andvíg(ur)“, „Hvorki né“, „Frekar hlynnt(ur)“, „Mjög hlynnt(ur)“ og „Veit ekki/ vil ekki svara“.
Samtals tóku 92,1% afstöðu til spurningarinnar.
 

Munur eftir lýðfræðihópum

Þegar litið var til aldurs mátti sjá að neikvæðni gagnvart sjálfsafgreiðslukössum jókst í takt við hækkandi aldur. Af þeim 68 ára og eldri kváðust 22% neikvæð gagnvart sjálfsafgreiðslukössum samanborið við einungis 5% þeirra á aldrinum 18-29 ára. Þá kváðust 70% þeirra á aldrinum 18-49 ára vera jákvæð gagnvart sjálfsafgreiðslukössum en 53% þeirra á aldrinum 50-67 ára og 40% þeirra 68 ára og eldri.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins (69%) reyndust jákvæðari gagnvart sjálfsafgreiðslukössum heldur en íbúar landsbyggðarinnar (49%) en 37% svarenda sem búsettir voru á landsbyggðinni kváðust hvorki jákvæðir né neikvæðir, samanborið við 21% íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Af þeim sem voru með háskólamenntun kváðust 70% jákvæð gagnvart sjálfsafgreiðslukössum, samanborið við 63% þeirra með framhaldsskólamenntun og 51% þeirra með grunnskólamenntun. Svarendur með grunnskólamenntun voru hins vegar líklegri en svarendur annarra menntunarhópa til að segjast hvorki jákvæð né neikvæð gagnvart sjálfsafgreiðslukössum í matvöruverslunum (40%).

Jákvæðni gagnvart sjálfsafgreiðslukössum reyndist meiri hjá þeim með hærri heimilistekjur heldur en þeim með lægri heimilistekjur. Af þeim með milljón eða meira í heimilistekjur kváðust 69% vera jákvæð gagnvart sjálfsafgreiðslukössum, samanborið við 66% þeirra með 600-999 þúsund í heimilistekjur og 56% þeirra með 599 þúsund eða minna í heimilistekjur.

Stuðningsfólk Viðreisnar (86%) reyndist jákvæðast gagnvart sjálfsafgreiðslukössum í matvöruverslunum en þar af kváðust 54% mjög jákvæð. Jákvæðnin var hins vegar minnst hjá stuðningsfólki Framsóknarflokksins (47%), Flokks fólksins (54%) og Miðflokksins (56%). Þá var stuðningsfólk Flokks fólksins (18%) líklegast til að segjast neikvætt gagnvart sjálfsafgreiðslukössum.

 

1808 Sjálfsafgreiðsla x v2

 

Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 957 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 3. ágúst til 10. ágúst 2018