Meirihluti landsmanna eða 63% bursta tennurnar tvisvar á dag. Þetta sýndu niðurstöður nýrrar könnunar MMR sem framkvæmd var dagana 25. júlí til 1. ágúst. Kváðust 25% bursta tennurnar daglega, 6% burstuðu þrisvar á dag og 1% fjórum sinnum eða oftar. Þá kváðust 3% bursta tennurnar sjaldnar en daglega og 1% burstaði aldrei tennurnar.
Spurt var: Að meðaltali, hversu oft burstar þú tennurnar?
Svarmöguleikar voru: „Aldrei, „Sjaldnar en daglega, „Einu sinni á dag“, „Tvisvar á dag“, „Þrisvar á dag“, „Fjórum sinnum á dag eða oftar“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 99,4% afstöðu til spurningarinnar.
Munur á viðhorfi eftir hópum
Konur (79%) voru líklegri en karlar (62%) til að bursta tennurnar tvisvar á dag eða oftar en karlar kváðust frekar bursta tennurnar einu sinni á dag (31%) heldur en konur (20%). Þá kváðust 7% karla bursta tennurnar sjaldnar en daglega en einungis 1% kvenna.
Svarendur 68 ára og eldri (81%) og þau á aldrinum 50-67 ára (76%) reyndust líklegri en fólk undir 50 ára (66%) til að bursta tennurnar tvisvar á dag eða oftar. Af þeim á aldrinum 18-29 ára kváðust 32% bursta tennurnar einu sinni á dag en það reyndist hærra hlutfall en hjá öðrum aldurshópum. Þá voru svarendur á aldrinum 50-67 ára (6%) og þau á aldrinum 30-49 ára (5%) líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að bursta tennurnar sjaldnar en daglega.
80% háskólamenntaðs fólks kvaðst bursta tennurnar tvisvar á dag eða oftar, samanborið við 73% þeirra sem lokið höfðu framhaldsskóla og 55% þeirra með grunnskólamenntun. Af þeim sem lokið höfðu grunnskólamenntun kváðust 36% bursta einu sinni á dag, samanborið við 23% þeirra með framhaldsskólamenntun og 20% þeirra með háskólamenntun. Þá voru grunnskólamenntaðir einnig líklegri en svarendur á öðrum menntunarstigum til að bursta tennurnar sjaldnar en daglega (9%).
Stuðningsfólk Vinstri grænna (82%), Viðreisnar (81%) og Sjálfstæðisflokksins (80%) var líklegast til að bursta tennurnar tvisvar á dag eða oftar. Stuðningsfólk Miðflokksins (33%) og Pírata (30%) reyndist líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að bursta tennurnar einu sinni á dag. Þá kvaðst 14% af stuðningsfólki Flokks fólksins bursta tennurnar sjaldnar en daglega sem reyndist hærra hlutfall heldur en hjá stuðningsfólki annarra flokka.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 911 einstaklingar, 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 25. júlí til 1. ágúst 2018