Svo virðist sem það reynist námsmönnum hvað erfiðast að komast fram úr rúminu á morgnanna en tæplega tveir af hverjum þremur þeirra ýta að minnsta kosti einu sinni á „snús“ takkann (e. snooze). Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar MMR sem framkvæmd var dagana 25. júlí til 1. ágúst. Kváðust 48% svarenda ýta einu sinni eða oftar á „snús“ takkann á morgnanna, þar af 17% yfirleitt einu sinni en 6% fimm sinnum eða oftar. Þá sögðust 39% yfirleitt vinna bug á freistingunni til að „snúsa“ og 13% reyndust hetjur sem þurftu ekki á vekjaraklukku að halda.
Samkvæmt þessum tölum reyndust Íslendingar öllum svefnværari heldur en svarendur sambærilegra breskra og bandarískra kannana, þar sem einungis 14% Breta og 15% Bandaríkjamann sögðust „snúsa“ þrisvar eða oftar á morgnana, samanborið við rúm 17% Íslendinga. Bretarnir reyndust einnig styðja sig minna við vekjaraklukkur en heil 21% Bretanna sögðust ekki notast við slík óhljóðatól til að vakna á morgnanna, samanborið við einungis 13% Íslendinga og 8% Bandaríkjamanna.
Spurt var: „Hversu oft ýtir þú yfirleitt á „snús“ takkann (e. snooze) á vekjaraklukkunni á morgnana?“
Svarmöguleikar voru: „Einu sinni“, „Tvisvar“, „Þrisvar“, „Fjórum sinnum“, „Fimm sinnum eða oftar“, „Ég ýti yfirleitt ekki á „snús“ takkann“,
„Ég nota ekki vekjaraklukku“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 99,0% afstöðu til spurningarinnar.
Munur á viðhorfi eftir hópum
Körlum reyndist öllu erfiðara að komast fram úr rúminu á morgnanna en 8% þeirra sögðust að jafnaði „snúsa“ fimm sinnum eða oftar á morgnanna, samanborið við 4% kvenna. Karlar reyndust jafnframt líklegri en konur til að nota ekki vekjaraklukku en 15% karla kváðust ekki nota vekjaraklukku, samanborið við 11% kvenna. Mun var einnig að sjá á „snús“ venjum eftir aldri en landsmenn undir þrítugu „snúsuðu“ meira heldur en aðrir aldurshópar. Þá kváðust 20% þeirra undir þrítugu „snúsa“ fimm sinnum eða oftar og aðeins 23% þeirra kváðust yfirleitt ekki ýta á „snús“ takkann, samanborið við 53% þeirra á aldrinum 50-67 ára. Af þeim 68 ára og eldri voru 49% sem ekki nota vekjaraklukku og einungis 15% sem sögðust „snúsa“ einu sinni eða tvisvar.
Af þeim sem voru búsettir á landsbyggðinni kváðust 42% yfirleitt ekki „snúsa“, samanborið við 37% þeirra sem búsett voru á höfuðborgarsvæðinu. Þá voru íbúar landsbyggðarinnar (19%) líklegri en íbúar höfuðborgarsvæðisins (10%) til að nota ekki vekjaraklukku. Námsmenn virtust þó eiga erfiðustu morgnanna af öllum lýðfræðihópum en tæp 66% þeirra sögðust „snúsa“ að minnsta kosti einu sinni og 20% sögðust „snúsa“ fimm sinnum eða oftar. Viljastyrkurinn til að ýta ekki á „snús“ takkann reyndist hins vegar mestur hjá stjórnendum og æðstu embættismönnum en rúm 53% þeirra sögðust yfirleitt ekki falla í „snús“ gildruna.
Af stuðningsfólki Framsóknarflokksins kváðust 60% ekki „snúsa“ á morgnanna sem er hærra hlutfall en hjá stuðningsfólki annarra flokka. Einungis 36% stuðningsfólks Framsóknar kvaðst „snúsa“ einu sinni eða oftar á morgnanna en mestu „snúsararnir“ reyndust stuðningsfólk Flokks fólksins (57%), Viðreisnar (56%) og Pírata (55%). Athygli vekur að stuðningsfólk Viðreisnar var sérlega kræft í „snúsinu“ en 25% þeirra kváðust „snúsa” fimm sinnum eða oftar á morgnanna.
Yougov könnun: Britain is a nation of snoozers
Nokia könnun: To Snooze or Not to Snooze: The Truth About the Snooze Button
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 911 einstaklingar, 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 25. júlí til 1. ágúst 2018