Samfélagsmál

|

Skiptar skoðanir voru á meðal landsmanna á því hvort hætta ætti dönskukennslu í grunnskólum landsins og kenna annað tungumál í staðinn, er fram kemur í könnnun MMR sem framkvæmd var dagana 12. til 18. júní 2018. Svarendur skiptust í jafnar fylkingar í afstöðu sinni til málsins en 38% voru andvíg og 38% fylgjandi breytingum á tungumálakennslu, þar af 18% mjög andvíg og 21% mjög fylgjandi. 24% svarenda kváðust hvorki andvígir né fylgjandi slíkum breytingum.

1806 Danska FBSpurt var: „Hversu fylgjandi eða andvíg(ur) ert þú hugmyndum um að hætta dönskukennslu í grunnskólum landsins og kenna annað tungumál í staðinn?“
Svarmöguleikar voru: „Mjög andvíg(ur)“, „Frekar andvígu(ur)“, „Hvorki né“, „Frekar fylgjandi“, „Mjög fylgjandi“ og „Veit ekki/ vil ekki svara“.
Samtals tóku 98,3% afstöðu til spurningarinnar.
 

Munur eftir lýðfræðihópum
Nokkurn mun var að sjá á afstöðu svarenda eftir lýðfræðihópum. Konur (41%) voru líklegri heldur en karlar (35%) til að segjast andvígar hugmyndum um að hætta dönskukennslu í grunnskólum landsins og kenna annað tungumál í staðinn en um fjórðungur karla (24%) kvaðst mjög fylgjandi slíkum breytingum. Andstaða við breytingar á dönskukennslu jókst eftir aldri en svarendur 68 ára og eldri (52%) voru líklegastir til að styðja við óbreytt fyrirkomulag. Andstaða við breytingar á dönskukennslu jókst einnig með aukinni menntun en tæp 52% háskólamenntaðra sögðust frekar eða mjög andvíg hugmyndum um breytingar á kennslu, samanborið við tæp 23% þeirra sem lokið höfðu skólagöngu sinni eftir útskrift úr grunnskóla. Þá jókst andstaða gegn breytingum einnig með auknum heimilistekjum. Engan mun var að sjá á afstöðu svarenda eftir búsetu.

Þegar litið var til stjórnmálaskoðana svarenda mátti einnig sjá mun á afstöðu svarenda.Stuðningsfólk Vinstri grænna (63%) og Framsóknarflokks (57%) var líklegast til að lýsa andstöðu gegn breytingum á dönskukennslu en þar af sögðust tæplega 30% stuðningsfólks Vinstri grænna mjög andvíg slíkum breytingum. Stuðningsfólk Viðreisnar (50%), Miðflokks (45%) og Pírata (44%) voru hins vegar líklegust til að vera fylgjandi þeirri hugmynd að kenna annað tungumál í grunnskólum í stað dönsku. 

1806 Danska x

 

Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 925 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 12. til 18. júní 2018