Meirihluti landsmanna kváðu umræðuna um #MeToo hreyfinguna, sem hefur átt sér stað á undanförnum mánuðum, vera jákvæða fyrir íslenskt samfélag. Þetta kom fram í könnun MMR sem framkvæmd var dagana 16. til 22. maí 2018. Sögðu tæp 71% svarenda umræðuna vera jákvæða fyrir íslenskt samfélag en tæplega 37% kváðu hana mjög jákvæða. 17% svarenda kváðu umræðuna hvorki vera jákvæða eða neikvæða en tæp 13% svarenda töldu hana neikvæða, þar af 5% mjög neikvæða.
Spurt var: „Hversu jákvæð eða neikvæð þykir þér umræðan um #MeToo hreyfinguna vera fyrir íslenskt samfélag?“
Svarmöguleikar voru: „Mjög neikvæð“, „Frekar neikvæð“, „Hvorki né“, „Frekar jákvæð“, „Mjög jákvæð“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 96,4% afstöðu til spurningarinnar.
Munur eftir lýðfræðihópum
Breytileiki var á afstöðu svarenda eftir lýðfræðihópum. Athygli vekur að nokkurn mun var að sjá á afstöðu kynjanna á málefninu en konur (82%) voru líklegri en karlar (60%) til að telja #MeToo umræðuna jákvæða. Þar af kvaðst nær helmingur kvenna (46%) telja umræðuna vera mjög jákvæða fyrir íslenskt samfélag en einungis rúmur fjórðungur karla (27%). Karlar (18%) voru hins vegar líklegri heldur en konur (7%) til að segja umræðuna neikvæða en 8% karla kváðu umræðuna vera mjög neikvæða fyrir samfélagið. Ef litið var til aldurs svarenda mátti sjá að jákvæðni gagnvart umræðunni var mest hjá yngsta (75%) og elsta (76%) aldurshópi svarenda en svarendur á aldrinum 18-29 ára (45%) voru líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segja umræðuna vera mjög jákvæða. Þá voru svarendur búsettir á höfuðborgarsvæðinu (74%) líklegri til að segjast jákvæðir gagnvart umræðunni heldur en þeir af landsbyggðinni (64%). Jákvæðni gagnvart #MeToo umræðunni jókst einnig með aukinni menntun og heimilistekjum.
Einnig mátti sjá nokkurn mun á afstöðu svarenda þegar litið var til stjórnmálaskoðana þeirra. Stuðningsfólk Samfylkingar (87%) og Vinstri grænna (91%) var líklegast allra til að telja #MeToo umræðuna vera jákvæða fyrir íslenskt samfélag en 56% stuðningsfólks Samfylkingar og 53% stuðningsfólks Vinstri grænna sögðu hana mjög jákvæða. Stuðningsfólk Miðflokks (32%), Sjálfstæðisflokks (22%) og Flokks fólksins (16%) var hins vegar líklegast til að segja umræðuna neikvæða fyrir samfélagið en tæp 17% stuðningsfólks Miðflokksins sögðu umræðuna mjög neikvæða.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 929 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 16. til 22. maí 2018