Dægurmál

|

Íslenska þjóðin kvaðst hóflega bjartsýn á gengi íslenska knattspyrnulandsliðsins á HM í Rússlandi sem nú stendur yfir samkvæmt könnun MMR sem framkvæmd var dagana 12. til 18. júní. Af aðspurðum töldu 59% íslenska landsliðið líklegt til að komast upp úr riðlakeppninni en þar af töldu tæp 19% að liðið kæmist í 8 liða úrslit eða lengra. 41% svarenda spáðu hins vegar að þátttöku Íslands í keppninni myndi ljúka með síðasta leik liðsins í hinum geysisterka D-riðli.

1806 HMSpurt var: „Hversu langt heldur þú að íslenska landsliðið í knattspyrnu nái á HM í Rússlandi?“
Svarmöguleikar voru: „Kemst ekki upp úr riðlinum“, „Kemst í 16 liða úrslit“, „Kemst í 8 liða úrslit“, „Kemst í undanúrslit“,
„Kemst í úrslitaleikinn“, „Vinnur keppnina“, „Veit ekki/ vil ekki svara“. Samtals tóku 86,6% afstöðu til spurningarinnar.
 

Munur eftir lýðfræðihópum
Konur voru líklegri til að telja íslenska liðið vænlegt til árangurs en 67% þeirra töldu liðið munu komast áfram úr riðlakeppninni, samanborið við 52% karla. Þegar litið var til aldurs svarenda mátti sjá að mesta bjartsýnin ríkti á meðal yngstu og elstu þátttakenda en svarendur á aldrinum 18-29 ára (66%) og 68 ára og eldri (69%) voru líklegastir til að spá íslenska landsliðinu sem einu af 16 efstu liðum keppninnar. Þá voru háskólamenntaðir öllu svartsýnni á gengi íslenska liðsins heldur en aðrir en 53% þeirra töldu strákana okkar ekki líklega til að komast upp úr D riðli. Þá fór bjartsýni á gengi liðsins minnkandi með auknum tekjum en einungis 46% svarenda með yfir milljón á mánuði í heimilistekjur töldu íslenska landsliðið líklegt til að ná í 16 liða úrslit eða lengra, samanborið við 71% svarenda í tekjulægsta hópnum. Lítill munur var á afstöðu eftir búsetu.

Þegar litið var til stjórnmálaskoðana mátti sjá nokkurn breytileika á afstöðu svarenda. Stuðningsfólk Miðflokks var líklegast til að telja íslenska landsliðið líklegt til afreka í D-riðli en 79% þeirra spáðu liðinu áframhaldandi þátttöku eftir riðlakeppni. Stuðningsfólk Viðreisnar (13%) var líklegast til að spá liðinu áfram í 8 liða úrslit keppninnar, stuðningsfólk Miðflokks (18%) var líklegast til að spá strákunum okkar þátttöku í undanúrslitum og stuðningsfólk Pírata (4%) var bjartsýnast á að íslenska liðið tæki silfur í keppninni. Stuðningsfólk Flokks fólksins (7%) var hins vegar líklegast allra til að telja að Íslendingar munu fara með sigur af hólmi í úrslitaleik keppninnar.

Rétt er að nefna að tæp 4% svara bárust eftir að leik Íslands og Argentínu lauk.

1806 HM x v3

 

Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 925 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 12. til 18. júní 2018