Matarvenjur Dægurmál Tilveran

|

Lítill munur var á því hversu margir vildu kaffið sitt svart eða með mjólk, samkvæmt könnun MMR á kaffidrykkju Íslendinga sem framkvæmd var dagana 16. til 22. maí 2018. Af þeim sem svöruðu sögðust 38% þiggja kaffið sitt svart og 39% með mjólk en fáir með sykri (0,1%) eða mjólk og sykri (2%). Hlutfall svarenda sem vildu helst aðra kaffidrykki var einnig nokkuð lágt (3%) en athygli vekur að um það bil fimmti hver Íslendingur (19%) kvaðst ekki drekka kaffi.

Upplýsingarnar sem fengnar voru með könnuninni færa okkur skrefinu nær því að skilja til hlítar hvaða kraftar það eru sem koma þjóðinni á fætur á morgnanna. Sem kunnugt er þá birti MMR einnig fyrir skömmu niðurstöður rannsókna um hvernig Íslendingar vilja hafa ristabrauðið sitt.

1805 KaffiSpurt var: „Hvernig vilt þú kaffið þitt?“
Svarmöguleikar voru: „Svart“, „Með mjólk“, „Með sykri“, „Með mjólk og sykri“, „Annað“, „Ég drekk ekki kaffi“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 99,6% afstöðu til spurningarinnar.
 

Munur eftir lýðfræðihópum
Nokkur munur var á svörum eftir lýðfræðihópum. Karlar voru öllu líklegri til að segjast vilja kaffið sitt svart (47%) heldur en konur (29%) en konur voru hins vegar líklegri til að segjast ekki drekka kaffi (24%) heldur en karlar (13%). Smekkur fyrir svörtu kaffi og kaffi með mjólk fór vaxandi eftir aldri. Yngri svarendur voru aftur á móti líklegri en þeir eldri til að segjast ekki stunda kaffidrykkju en nær þriðjungur svarenda á aldrinum 18-29 ára (32%) sagðist ekki drekka kaffi. Lítill munur var á svörum eftir búsetu. Þá jókst kaffidrykkja með aukinni menntun og tekjum. Á meðal starfsstétta var kaffidrykkja mest á meðal stjórnenda og æðstu embættismanna (94%) og voru námsmenn líklegastir til að segjast helst kjósa annars konar kaffidrykki (8%).

Þegar litið var til stjórnmálaskoðana mátti sjá nokkurn breytileika á afstöðu svarenda. Stuðningsfólk Viðreisnar (64%) var líklegast til að segjast vilja drekka kaffið sitt svart en stuðningsfólk Framsóknar- (54%) og Miðflokks (53%) var hins vegar líklegast til að vilja kaffið með mjólk. Þá var stuðningsfólk Miðflokks (6%) líklegast allra til að þiggja mjólk og sykur í bollann sinn, stuðningsfólk Flokks fólksins (6%) sagðist mest allra helst vilja drekka aðra kaffidrykki og stuðningsfólk Framsóknarflokks (21%) og Pírata (21%) skipuðu stærstu hlutföll þeirra sem sögðust sniðganga kaffidrykkju.

Það lítur því út fyrir að svartur bolli (með mjólkurkönnuna til hliðar) og meðalristað brauð sé líklegt til að vekja lukku á flestum heimilum landsins en enn er óljóst hvers kyns álegg eða viðbit Íslendingar kjósa helst á morgnana með kaffinu. Morgun- og miðdegisverðar-rannsóknardeild MMR mun halda áfram að skyggnast í hvað það er sem heldur landsmönnum gangandi í amstri dagsins.

1805 Kaffi x

MMR könnun 2017: Uppáhalds ristabrauðið fundið

Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 929 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 16. til 22. maí 2018