Skiptar skoðanir eru á því hvort að Íslendingar eigi að hefja hvalveiðar á ný, samkvæmt könnun sem MMR framkvæmdi dagana 26. apríl til 2. maí 2018. Rúmlega þriðjungur svarenda kváðust frekar eða mjög andvígir áframhaldandi hvalveiðum (34%) og rúmlega þriðjungur hlynntur þeim (34%) en tæplega þriðjungur kvaðst hvorki hlynntur né andvígur (31%).
Spurt var: „Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert þú því að Íslendingar hefji hvalveiðar á ný?“
Svarmöguleikar voru: „Mjög andvíg(ur)“, „Frekar andvíg(ur)“, „Hvorki né“, „Frekar hlynnt(ur)“, „Mjög hlynnt(ur)“, og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 93,4% afstöðu til spurningarinnar.
Munur eftir lýðfræðihópum
Munur var á afstöðu gagnvart hvalveiðum eftir kyni en rúmlega 38% kvenna kváðust frekar eða mjög andvígar því að Íslendingar hefji hvalveiðar á ný, samanborið við rúmlega 30% karla. Konur voru að sama skapi ólíklegri til að segjast frekar eða mjög hlynntar áframhaldandi hvalveiðum (25%) heldur en karlar (43%). Lítill munur var á svörum eftir aldurshópum en stuðningur við hvalveiðar var minnstur (29%) hjá svarendum á aldrinum 18-29 ára. Þá voru þeir svarendur sem búsettir voru á landsbyggðinni öllu hlynntari hvalveiðum (42%) heldur en þeir á höfuðborgarsvæðinu (30%). Andstaða gegn hvalveiðum jókst með aukinni menntun og auknum heimilistekjum.
Þegar litið var til stjórnmálaskoðana mátti sjá nokkurn breytileika á afstöðu svarenda. Stuðningsfólk Samfylkingar (59%), Viðreisnar (55%), Vinstri grænna (46%) og Pírata (45%) voru líklegri til að segjast frekar eða mjög andvíg því að hvalveiðar yrðu hafnar á ný en 41% stuðningsfólks Samfylkingar sögðust mjög andvíg. Mestan stuðning við áframhald hvalveiða var hins vegar að finna á meðal stuðningsfólks Miðflokks (59%), Framsóknarflokks (48%), Flokks fólksins (47%) og Sjálfstæðisflokks (44%) og kváðust 35% stuðningsfólks Miðflokksins mjög hlynnt því að hefja hvalveiðar á ný.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 961 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 26. apríl til 2. maí 2018