Stór meirihluti íslensku þjóðarinnar taldi efnahagsstöðuna á Íslandi vera góða, samkvæmt könnun MMR sem framkvæmd var dagana 13. til 19. apríl 2018. Rúmlega 80% aðspurðra töldu stöðu efnahagsins vera nokkuð eða mjög góða en það var 15 prósentustiga hækkun frá könnun MMR frá apríl 2017. Einungis 4% svarenda kváðu stöðuna mjög slæma, 6 prósentustigum færri en á sama tíma í fyrra en hlutfall þeirra sem taldi efnahagsstöðu frekar slæma minnkaði einnig um 9 prósentustig á milli ára.
Spurt var: „Hvort telur þú efnahagsstöðuna á Íslandi í dag vera góða eða slæma?“
Svarmöguleikar voru: „Mjög slæm“, „Frekar slæm“, „Nokkuð góð“, „Mjög góð“, „Veit ekki“ og „Vil ekki svara“.
Samtals tóku 89,9% afstöðu til spurningarinnar.
Munur eftir lýðfræðihópum
Karlar voru líklegri til að telja efnahagsstöðuna mjög góða (16%) heldur en konur (8%) en konur töldu í meira mæli að staðan væri frekar (20%) eða mjög (5%) slæm. Bjartsýni á stöðu efnahagsmála jókst með auknum aldri og voru svarendur á aldrinum 50-67 ára (87%) og 68 ára og eldri (84%) líklegastir til að telja stöðuna nokkuð eða mjög góða. Þeir svarendur sem búsettir voru á landsbyggðinni sögðust líklegri til að telja efnahagsstöðuna slæma (25%) heldur en íbúar höfuðborgarsvæðisins (17%). Þá mátti sjá bjartsýni á stöðu efnahagsmála aukast með hærra menntunarstigi og auknum heimilistekjum.
Þegar litið var til stjórnmálaskoðana svarenda mátti sjá nokkurn mun á afstöðu eftir stuðningi við flokka. Þeir svarendur sem lýstu stuðningi sínum við Viðreisn (97%), Sjálfstæðis- (97%) eða Framsóknarflokk (96%) voru líklegastir til að telja stöðu efnahags á Íslandi vera góða en þar af töldu 25% stuðningsfólks Viðreisnar og 23% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokks stöðuna mjög góða. Stuðningsfólk Flokks fólksins (50%) og Pírata (44%) var hins vegar líklegast til að telja efnahagsstöðuna slæma en alls töldu 13% af stuðningsfólki Pírata stöðuna mjög slæma.
MMR könnun 2017: Telja efnahagsstöðuna góða og horfur stöðugar
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 910 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 13. til 19. apríl 2018