Meirihluti landsmanna segir hluti almennt vera að þróast í rétta átt á Íslandi samkvæmt nýrri könnun MMR. Alls sögðu tæp 58% svarenda hlutina vera á réttri leið, sem er 12% hækkun frá könnun MMR sem framkvæmd var í febrúar 2017. Einnig var spurt hvaða málaflokkar valdi svarendum mestum áhyggjum og reyndust áhyggjur af heilbrigðisþjónustu svarendum efst í huga.
Spurt var: „Almennt séð, myndir þú segja að hlutirnir séu að þróast í rétta átt á Íslandi eða eru þeir á rangri braut?“
Svarmöguleikar voru: „Á rangri braut“, „Í rétta átt“ og „Vil ekki svara“.
Samtals tóku 86,9% svarenda afstöðu til spurningarinnar.
Munur eftir lýðfræðihópum
Nokkur munur var á svörum eftir kyni en karlar (62%) voru líklegri til að telja hlutina vera að þróast í rétta átt heldur en konur (53%). Svarendur á aldrinum 50-67 ára voru einnig líklegri til að telja hlutina stefna í rétta átt (61%) heldur en svarendur annarra aldurshópa en svarendur í elsta aldurshópi (68 ára og eldri) voru líklegastir til að segja hlutina vera á rangri braut (49%). Lítinn mun var að sjá á svörun eftir búsetu.
Athygli vekur að bjartsýni á þróun mála eykst í takt við hærra menntunarstig og heimilistekjur. Svarendur sem hafa lokið háskólanámi voru líklegri til að telja hlutina stefna í rétta átt (61%) heldur en þeir sem lokið höfðu námi sínu eftir útskrift úr framhaldsskóla (57%) eða grunnskóla (53%). Svarendur með heimilistekjur upp á milljón eða meira voru að sama skapi líklegri til að lýsa yfir jákvæðri sýn á þróun mála (69%) heldur en svarendur með heimilistekjur undir 400.000 kr. (38%).
Ef litið er til stjórnmálaskoðana svarenda má sjá að stuðningsfólk Sjálfstæðisflokks (80%), Framsóknarflokks (77%) og Vinstri grænna (70%) eru almennt líklegri en stuðningsfólk annarra flokka til að telja að hlutirnir séu að þróast í rétta átt. Stuðningsfólk Flokks fólksins (69%) og Pírata (58%) reyndust aftur á móti líklegri til að telja hlutina vera að þróast í ranga átt.
Tengsl við áhyggjur
Einnig var spurt hvaða þremur málefnum sverendur hefðu mestar áhyggjur af. Af þeim 19 málaflokkum sem spurt var um sögðust svarendur hafa mestar áhyggjur af heilbrigðisþjónustu (44%), spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum (42%), húsnæðismálum (34%) og fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði (31%). Minnstar áhyggjur höfðu svarendur af atvinnleysi (2%), hryðjuverkum (2%) og aðgengi að lánsfé (1%). Þetta er lítil breyting á áherslum frá könnun MMR frá 2017 en spurningar um áhyggjur af húsnæðismálum og efnahagslegu hruni/samdrætti var ekki að finna í þeirri könnun.
Spurt var: „Hvaða þremur af neðangreindum atriðum hefur þú mestar áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi?“ Svarmöguleikar voru: „Atvinnuleysi“, „Spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum“, „Fátækt og/eða félagslegur ójöfnuður“, „Glæpir og ofbeldi“, „Heilbrigðisþjónusta“, „Hryðjuverk“, „Menntun“, „Skattar“, „Innflytjendamál“, „Siðferðishnignun“, „Verðbólga“, „Uppgangur öfgaskoðana“, „Viðhald velferðarkerfisins“, „Ógnir gegn umhverfinu“, „Loftslagsbreytingar“, „Ofþyngd barna“, „Aðgengi að lánsfé“, „Húsnæðismál“, „Efnahagslegt hrun/samdráttur“, „Ekkert af ofangreindu“ og „Vil ekki svara“. Samtals tóku 97,9% svarenda afstöðu til spurningarinnar.
Munur eftir lýðfræðihópum
Ef litið er til þeirra fjögurra málaflokka sem svarendur lýstu hvað mestum áhyggjum yfir má sjá að afstaða var nokkuð breytileg eftir lýðfræðihópum. Nokkur munur var á afstöðu kynjana gagnvart heilbrigðisþjónustu en 51% kvenna lýstu yfir áhyggjum af þeim málaflokki, samanborið við 37% karla. Konur (38%) voru einnig líklegri en karlar (29%) til að lýsa yfir áhyggjum af húsnæðismálum en karlar (44%) töldu spillingu í fjármálum meira áhyggjuefni heldur en konur (39%).
Áhyggjur af heilbrigðisþjónustu voru mestar á meðal svarenda á aldrinum 18-29 ára (52%) og þeirra á aldrinum 68 ára og eldri (51%). Yngri svarendur lýstu meiri áhyggjum af húsnæðismálum heldur en þeir eldri en áhyggjur af bæði spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum og fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði fóru hækkandi með auknum aldri. Þá lýstu íbúar höfuðborgarsvæðisins (38%) frekar áhyggjum af húsnæðismálum en íbúar landsbyggðarinnar (25%).
Námsmenn lýstu mestum áhyggjum allra starfsstétta af heilbrigðisþjónustu (55%) og húsnæðismálum (55%) en bændur, sjó-, iðn-, véla og verkafólk lýstu mestum áhyggjum af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum (52%).
Ef litið er til stuðnings við stjórnmálaflokka má sjá að stuðningsfólk Framsóknarflokks (32%), Viðreisnar (32%) og Flokks fólksins (30%) lýstu yfir minnstum áhyggjum af heilbrigðisþjónustu en stuðningsfólk Vinstri grænna (51%) mestum. Þá lýsti stuðningsfólk Sjálfstæðisflokks (22%) og Framsóknarflokks (23%) yfir minni áhyggjum af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum en stuðningsfólk annarra flokka. Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins lýsti einnig minnstum áhyggjum af Fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði (10%) en stuðningsfólk Samfylkingarinnar (48%) þeim mestu.
Tengsl skoðana á þróun við áhyggjur
Skoðuð voru tengsl á milli áhyggja svarenda af málaflokkum innan íslensks samfélags og hvort þeir töldu hlutina á Íslandi vera að þróast í rétta átt. Mestrar svartsýni gagnvart þróun Íslands gætti hjá þeim sem þóttu fátækt og/eða félagslegur ójöfnuður (45%) og spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum (45%) vera meðal helstu áhyggjuefna. Hins vegar voru þeir sem höfðu mestar áhyggjur af ofþyngd barna (78%), uppgangi öfgaskoðana (80%) og hryðjuverkum (82%) helst sammála því að hlutirnir væru á réttri leið.
Til samanburðar má nefna að samkvæmt könnun Ipsos sem framkvæmd var í mars 2018 og náði til 28 landa telja 58% aðspurðra hlutina stefna í ranga átt í sínu heimalandi. Þá voru spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum (35%), atvinnuleysi (34%) og fátækt og/eða félagslegur ójöfnuður (34%) tíðræddustu áhyggjuefni svarenda.
MMR könnun 2017: Hvert stefnir þetta alltsaman eiginlega?
Ipsos Public Affairs könnun 2018: What worries the world?
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 906 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 22. febrúar til 1. mars 2018