Nú er verslunarmannahelgin framundan og ekki ólíklegt að einhver finni fyrir þynnku á næstu dögum. Sérhver sá sem hefur einhvern tímann þjáðst af timburmönnum eftir stíft sumbl þekkir hve illa dagurinn á eftir endist og þá skiptir miklu máli að þekkja réttu ráðin til að losna undan þynnkunni. MMR kannaði því hvaða ráð Íslendingar eru líklegastir til að nota til að draga úr og sefa eymdina.
Könnunin sýndi að þriðjungur Íslendinga annað hvort drukku aldrei eða urðu aldrei þunnir. Langvinsælasta aðferðin til að losna við þynnkuna var þó að drekka vatn, eða 40%. Þar á eftir notuðu 24% og 21% Íslendinga verkjalyf eða borðuðu feitan mat. Enn aðrir sögðust drekka íþróttadrykki (14%) eða kaffi (9%) til að losna við þynnkuna. Einungis 3% svarenda reyndust svo djarfir að drekka meira áfengi eða að fá sér svokallaðan afréttara til að losna við timburmennina og 13% svarenda gerðu einfaldlega ekkert til að losna við þá.
Spurt var: „Þegar og ef þú ert þunn(ur), hvaða aðferðir notar þú almennt til að losna við þynnkuna?“ Svarendur máttu merkja við einn eða fleiri af þeim svarmöguleikum sem sýndir eru í myndinni auk „veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 97,8% svarenda afstöðu til spurningarinnar.
Munur eftir lýðfræðihópum
Ef munur var svo skoðaður eftir lýðfræðihópum mátti sjá að fleiri karlar (18%) en konur (9%) voru líklegri til að leyfa ferlinu að eiga sinn gang og gera ekkert við þynnkunni. Hvað varðar aldur þó kom í ljós að því eldri sem svarendur voru, því ólíklegri voru þeir til að drekka vatn, taka verkjalyf, borða feitan mat og drekka íþróttadrykki og kaffi til að losna við þynnku. Þannig sögðust 58% þeirra sem voru 18 til 29 ára drekka vatn til að losna við þynnkuna, samanborið við einungis 12% þeirra sem voru 68 ára og eldri. Aftur á móti voru einstaklingar í síðarnefnda aldurshópnum líklegastir til að drekka aldrei eða verða aldrei þunnir, eða 59%.
Námsmenn í aldurshópnum 18 til 29 ára voru jafnframt sá hópur sem líklegastur var til að segjast drekka orkudrykki, drekka kaffi og borða ristabrauð til að losna við þynnkuna. Eins var háskólamenntað fólk líklegra en fólk sem lokið hafði grunnskólamenntun eða framhaldsskólamenntun til að segjast drekka vatn (48%), taka verkjalyf (31%) og borða feitan mat (26%) til að losna við þynnku.
Um stuðning við stjórnmálaflokka kom einnig í ljós að stuðningsfólk Vinstri grænna var líklegasti hópurinn til að segjast aldrei drekka eða verða aldrei þunnt, eða 40%. Stuðningsfólk Viðreisnar var aftur á móti ólíklegasti hópurinn til að gera slíkt hið sama, eða 25% en sá hópur var líklegastur til að segjast drekka vatn (52%) og taka verkjalyf (36%) til lausnar við þynnku.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar, 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 909 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 18.-21. júlí 2017