Í nýrri könnun MMR kemur í ljós að 43% Íslendinga 18 ára og eldri hafa farið í Costco og að önnur 49% hafi ekki farið en ætli að heimsækja verslunina við tækifæri. Tæp 8% svarenda sögðust ekki ætla fara í verslunina. Í könnuninni kom í ljós að yngri svarendur og þeir sem bjuggu á tekjuhærri heimilum voru töluvert líklegri en aðrir til að hafa heimsótt Costco en aðrir.

 

 1706 Costco01Spurt var: „Hefur þú farið í Costco?
Svarmöguleikar voru: Já, þrisvar eða oftar; já, tvisvar; já, einu sinni; nei, en mun fara við tækifæri; nei, ætla ekki að fara.

Samtals tóku 99,2% svarenda afstöðu til spurningarinnar.

Munur á afstöðu eftir lýðfræðihópum 

Heldur fleiri konur (47%) en karlar (40%) höfðu farið í Costco einu sinni eða oftar. Þar af höfðu 10% karla og 11% kvenna farið þrisvar sinnum eða oftar.

Þá voru 51% svarenda undir 29 ára sem sögðust hafa heimsótt verslunina samanborið við 26% þeirra sem voru 68 ára og eldri. Nærri helmingur, eða 49% þeirra sem bjuggu á heimilum með heimilistekjur yfir milljón krónur á mánuði, söguðst hafa heimsótt Costco samanborið við 34% þeirra sem bjuggu á heimilum með undir 400 þúsund krónur í heimilistekjur á mánuði.

Af þeim sem búsettir voru úti á landi sögðust 60% svarenda ekki hafa farið í Costco en myndu gera það við tækifæri á meðan 43% þeirra sem búsettir voru á höfuðborgarsvæðinu sögðu slíkt hið sama. Að sama skapi höfðu 50% höfuðborgarbúa heimsótt verslunina samanborðið við 29% íbúa landsbyggðarinnar.

Ef horft er til stjórnmálaskoðana má sjá að stuðningsfólk Vinstri grænna hafði síst heimsótt Costco (29%) en stuðningsfólk Samfylkingarinnar var aftur á móti líklegast til að ætla ekki að fara í Costco (13%). Sjáflstæðismenn virðast hins vegar llíklegastir til að kjósa Costco, en 95% þeirra hafa annað hvort komið í verslunina eða ætla að fara þangað við tækifæri.

 

 1706 Costco02

 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar, 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 974 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 6.-14. júní 2017