Íslendingum finnst almennt séð að lífið sé sanngjarnt. Þetta sýnir nýleg könnun MMR sem var framkvæmd 11.-16. maí 2017. Rúm 72% þátttakenda í könnuninni kváðu lífið vera sanngjarnt en tæp 28% kváðu það vera ósanngjarnt. Samtals tóku 79,2% þátttakenda í könnuninni afstöðu til spurningarinnar.
Spurt var: „Finnst þér lífið vera sanngjarnt eða ósanngjarnt“
Svarmöguleikar voru: Lífið er sanngjarnt, lífið er ósanngjarnt, veit ekki/vil ekki svara.
Samtals tóku 79,2% svarenda afstöðu til spurningarinnar.
Munur á afstöðu eftir lýðfræðihópum
Konur reyndust líklegri en karlar til að finnast lífið vera sanngjarnt en 74% kvenna sögðu lífið vera sanngjarnt samanborið við 71% karla.
Með auknum aldri jókst hlutfall þeirra sem töldu lífið sanngjarnt. Af þátttakendum 68 ára og eldri sögðu 83% lífið vera sanngjarnt en einungis 60% þátttakenda á aldrinum 18-29 ára voru sama sinnis.
Hlutfall þeirra sem töldu lífið sanngjarnt jókst einnig með auknum heimilistekjum. Af þeim sem höfðu heimilistekjur undir 400 þúsund á mánuði töldu 57% lífið vera sanngjarnt samanborið við 81% þeirra sem höfðu milljón eða meira í heimilistekjur.
Stuðningsfólk Pírata (60%) og Samfylkingar (51%) reyndust töluvert líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að finnast lífið vera ósanngjarnt. Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokks reyndist aftur á móti líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að telja lífið vera sanngjarnt eða 88%.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar, 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 943 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 11.-16. maí 2017