Rúm 65% Íslendinga telja efnahagsstöðuna á Íslandi í dag vera góða en 35% telja að hún sé slæm. Þetta sýnir nýleg könnun MMR sem fór fram dagana 11.-26. apríl.
Spurt var: „Hvort telur þú efnahagsstöðuna á Íslandi í dag vera góða eða slæma?“
Svarmöguleikar voru: Mjög slæma, Frekar slæma, Nokkuð góða, Mjög góða og Veit ekki/Vil ekki svara.
Samtals tóku 89,4% svarenda afstöðu til spurningarinnar.
Munur á afstöðu eftir lýðfræðihópum
Hærra hlutfall karla en kvenna taldi efnahagsstöðuna á Íslandi í dag vera góða. Af körlum sögðu 10% efnahagsstöðuna vera mjög góða og 60% frekar góða samanborið við 5% kvenna sem sögðu efnahagsstöðuna mjög góða og 55% frekar góða.
Aldurshópurinn 18-29 ára reyndist líklegri en aðrir aldurshópar til að segja efnahagsstöðuna slæma. Í aldurshópnum 18-29 ára töldu 47% að efnahagsstaðan væri slæm, þar af töldu 16% að efnahagsstaðan væri mjög slæm. Aldurshópurinn 68 ára og eldri var líklegri en aðrir til að telja efnahagsstöðuna vera mjög góða eða 16%. Til samanburðar töldu 8% í aldurshópnum 50-67 ára efnahagsstöðuna vera mjög góða og 6% þeirra í aldurshópunum 30-49 ára og 18-29 ára.
Íslendingar í sérfræðistörfum (77%) voru líklegri en aðrir til að telja efnahagsstöðuna góða en námsmenn (49%) voru líklegastir til að telja hana slæma.
Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokks (87%) og Viðreisnar (87%) var töluvert líklegra en stuðningsfólk annarra flokka tl að telja efnahagsstöðuna góða. Af stuðningsfólki Pírata töldu 25% að efnahagsstaðan væri mjög slæm.
Tæp 57% svarenda töldu að efnahagsstaðan á Íslandi myndi verða svipuð og í dag eftir 6 mánuði. Rúm 16% töldu að efnhagsstaðan yrði betri eftir 6 mánuði en 27% að hún yrði verri.
Spurt var: „Telur þú að efnahagsstaðan á Íslandi muni vera betri eða verri eftir 6 mánuði, samanborið við efnahagsstöðuna í dag?“
Svarmöguleikar voru: Miklu verri, aðeins verri, svipuð og í dag, aðeins betri, miklu betri og veit ekki/Vil ekki svara.
Samtals tóku 87,6% svarenda afstöðu til spurningarinnar.
Munur á afstöðu eftir lýðfræðihópum
Konur (28%) reyndust ívið líklegri en karlar (26%) til að telja að efnahagsstaðan muni versna næstu 6 mánuði. Af körlum töldu 19% að efnahagsástandið myndi batna, samanborið við 14% kvenna.
Þau í aldurshópnum 68 ára og eldri voru nokkuð líklegri til að telja að efnahagsstaðan muni versna á næstu 6 mánuðum eða 34% og aðeins 8% töldu að hún ætti eftir að batna.
Af stjórnendum og æðstu embættismönnum töldu 34% að efnahagsstaðan yrði svipuð eftir 6 mánuði, samanborið við 62% þjónustu-, skrifstofufólks, tækna og þeirra sem ekki voru útivinnandi. 31% stjórnenda og æðstu embættismanna töldu að efnahagsstaðan eigi eftir að batna en 35% að hún muni versna.
Af stuðningsfólki Viðreisnar töldu 44% að efnahagsstaðan eftir 6 mánuði verði svipuð og í dag, samanborið við 63% stuðningsfólks Samfylkingar og 62% Sjálfstæðismanna. Stuðningsfólk Viðreinsar (29%) og Sjálfstæðisflokks (27%) reyndist líklegra en aðrir til að telja að efnahagurinn muni batna á næstu 6 mánuðum en einungis 7% stuðningsfólk Samfylkingar taldi að efnahagurinn myndi batna. Stuðningsfólk Vinstri grænna (35%) var aftur á móti ívið líklegra en aðrir til að telja efnahagsstöðuna eiga eftir að versna næstu 6 mánuði.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar, 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 926 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 11.-26. apríl 2017