Alþingiskosningar

|

Samkvæmt könnun MMR sem fram fór dagana 26. til 28. október mældist Sjálfstæðisflokkurinn stærstur flokka með 24,7% fylgi, sem er tæpum þremur prósentustigum meira en hann mældist með í síðustu könnun sem lauk 26. október (21,9% fylgi). Píratar koma næst á eftir með 20,5% fylgi sem er ívið hærra en fylgi þeirra í síðustu könnun (19,1%).

Vinstri-grænir mældust með 16,2% fylgi sem er svotil sama fylgi og þeir mældust með í síðustu könnun (16,0%).
Framsóknarflokkurinn mældist nú með 11,4% fylgi, sem er ívið hærra en þeir mældust með í síðustu könnun (10,0%).
Viðreisn mældist nú með 8,9% fylgi sem er svotil sama fylgi og í síðustu könnun (9,3%).
Björt framtíð mældist nú með 6,7% fylgi, sem er um 2 prósentustigum lægra en í síðustu könnun (8,8%).
Samfylkingin mældist nú með 6,1% fylgi, sem er minnsta fylgi þeirra síðan mælingar MMR hófust og ívið lægra heldur en í síðustu könnun (7,6%).
Fylgi annarra flokka mældist um og undir 2%.


161028 fylgismynd02

Lagðar voru allt að þrjár spurningar fyrir svarendur um stuðning þeirra við stjórnmálaflokka. Allir voru spurðir spurningar 1: „Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?“. Þeir sem svöruðu „Veit ekki/óákveðin(n)“ við spurningu 1 voru því næst spurðir spurningar 2: „En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu?“. Ef aftur var svarað „Veit ekki/óákveðin(n)“ þá voru þátttakendur að lokum spurðir spurningar 3: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?“. Fjölda þeirra sem svaraði "einhvern hinna" í spurningu 3 var skipt milli annarra flokka en Sjáflstæðisflokksins í sama hlutfalli og fylgi þeirra var skv. spurningum 1 og 2. Samtals voru 87,0% sem gáfu upp afstöðu til flokka, aðrir kváðust óákveðnir (4,3%), myndu skila auðu (5,7%), myndu ekki kjósa (1,0%) eða vildu ekki gefa upp afstöðu sína (2,0%). Myndin sýnir niðurstöðu könnunar að viðbættum efri og neðri vikmörkum miðað við 95% öryggisbil ásamt samanburði við síðustu kannanir þar á undan.

 

Hvert sækja flokkarnir fylgi sitt?

Fylgi flokkanna reyndist töluvert frábrugðið eftir bakgrunni kjósenda. Til að mynda vour konur mun líklegri til að kjósa Vinstri-græna en karlar mun líklegri til að kjósa Framsókn. Eins var fólk búsett á landsbyggðinni nær fimmfalt líklegra til að kjósa Framsókn en fólk sem búsett var á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar höfuðborgarsvæðisins voru aftur á mót mun líklegri til að kjósa Viðreisn. Einnig reyndist mikill munur á afstöðu eftir aldurshópum.
Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin sóttu fylgi sitt til að mynda frekar til þeirra sem eldri voru á meðan Björt framtíð og einkum Píratar sóttu fylgi sitt frekar til þeirra sem yngri voru. Því má velta því upp að ef kosningaþátttaka yngra fólks verður hlutfallslega minni heldur en eldra fólks, eins og gerst hefur í fyrri kosningum, má leiða líkur að því að kjörfylgi þeirra flokka sem ná betur til þeirra sem yngri verði lægra en könnunin gefur til kynna.

161028 sundurgreiningarmynd03

 

Þróun yfir tíma

161028 Fylgiyfirtima02

 

Stuðningur við ríkisstjórnina (mynd óuppfærð)

Stuðningur við ríkisstjórnina mældist 35,0% en mældist 33,3% í síðustu könnun sem lauk 26. október.

161028 supportdata01 

Spurt var: Styður þú ríkisstjórnina? (stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks) Svarmöguleikar voru: „Já“, „Nei“ og „Veit ekki/Vil ekki svara“ Samtals tóku 89,2% afstöðu til spurningarinnar. 

 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.
Álitsgjafar MMR eru valdir úr Þjóðskrá þannig að þeir endurspegli lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar á hverjum tíma.
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 958 einstaklingur, 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 26. til 28. október 2016