Í könnun MMR var spurt hvort svarendur gætu að fyrra bragði nefnt einhvern einstakling í samfélaginu sem það teldi öðrum fremur vera eða geta orðið sameiningartákn fyrir þjóðina. Könnunin var áður framkvæmd í september árið 2009 og þá vakti athygli hve fáir gátu nefnt slíkan einstakling - en eingöngu 1% svarenda nefndu þáverandi forseta, Ólaf Ragnar Grímsson, sem sameiningartákn þjóðarinnar. Öllu fleiri, eða 15,4%, nefndu sitjandi forseta, Guðna Th. Jóhannesson, sem sameiningartákn þjóðarinnar nú.
Sá einstaklingur sem var næst oftast nefndur sem sameiningartákn þjóðarinnar var Vigdís Finnbogadóttir (með 3,0% nefninga). Vigdís er einmitt eini einstaklingurinn sem komst á lista bæði árin sem könnunin hefur verið gerð enda var hún efst á lista árið 2009 (með 4,5% nefninga). Katrín Jakobsdóttir var nefnd af 1,5% svarenda og 1,0% nefndu Bjarna Benadiktsson.
Áhugavert er að sjá að allir þeir sem oftast voru nefndir eru kjörnir fulltrúar að undanskildum tónlistarmanninum ástsæla Páli Óskari Hjálmtýssyni sem nefndur var af 1,1% svarenda. Áfram Palli!
Aðrir voru nefndir af færri en 1% svarenda.
Spurt var: ,,Er einhver einstaklingur í samfélaginu sem þú telur öðrum fremur að sé eða geti orðið sameiningartákn fyrir íslensku þjóðina?''
Samtals tóku 89,9% afstöðu til spurningarinnar.
Svarmöguleikar við spurningunni voru opnir (þ.e. svarendur gáfu svör með eigin orðum sem voru síðan flokkuð að lokinni gagnaöflun).
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 985 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 20. til 26. september 2016
Eldri kannanir sama efnis:
2009 Sept Könnun MMR á sameinginartákni þjóðarinnar