Dagana 20. til 26. september kannaði MMR viðhorf Íslendinga gagnvart búvörusamningunum sem samþykktir voru á Alþingi þann 13. september síðastliðinn. Í ljós kom að 62,4% svarenda sögðust vera andvígir búvörusamningunum en 16,3% sögðust vera fylgjandi.
Spurt var: Þann 13. september 2016 voru samþykkt á Alþingi ný lög sem festa í sessi nýja búvörusamninga sem gerðir voru fyrr á árinu.
Hversu fylgjandi eða andvíg(ur) ert þú þessum lögum?
Svarmöguleikar voru: Mjög andvíg(ur); Frekar andvíg(ur); Hvorki fylgjandi né andvíg(ur); Frekar fylgjandi; Mjög fylgjandi; Veit ekki; vil ekki svara.
Samtals tóku 67,0% afstöðu til spurningarinnar, en þau sem ekki tóku afstöðu svöruðu „veit ekki“ (30,0%) eða „vil ekki svara“ (3,0%).
Munur eftir lýðfræðihópum
Töluverður munur var á afstöðu fólks gagnvart búvörusamningunum eftir aldri, en eldri aldurshópar voru líklegri til að vera fylgjandi búvörusamningunum. Sem dæmi sögðust 31% þeirra sem eru 68 ára eða eldri vera fylgjandi samningunum á meðan einungis 8% þeirra sem eru 29 ára eða yngri sögðust vera fylgjandi búvörusamningunum.
Einnig munaði miklu þegar afstaða var skoðuð eftir búsetu, en 28% þeirra sem búsett voru á landsbyggðinni sögðust vera fylgjandi búvörusamningunum en einungis 10% þeirra sem búsett voru á höfuðborgarsvæðinu.
Þegar afstaða er skoðuð eftir stjórnmálaflokkum sést að stuðningsfólk Framsóknar var lang líklegast til að vera fylgjandi búvörusamningunum, en 55% stuðningsmanna flokksins kváðust fylgjandi samningunum. Þau sem sögðust styðja Samfylkinguna, Bjarta framtíð, Pírata og Viðreisn voru hins vegar ólíklegust til að vera fylgjandi samningunum, en yfir 75% stuðningsfólks þessara flokka sögðsust andvíg samningunum.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 985 einstaklingar, 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 20. til 26. september 2016
Þróun milli mælinga:
Ekki var spurt um traust til Landsdóms í fyrri mælingum.