Munið þið eftir unisex klósettunum í Ally McBeal þáttunum sem settu hálfan heiminn í uppnám um síðustu aldamót?
Jæja, umræðan lifir og MMR þótti ekki seinna vænna en að skella í könnun meðal landsmanna um afstöðu til málefnisins.
Þegar spurt var hversu fylgjandi eða andvígir Íslendingar voru því að merkingar fyrir kyn yrðu fjarlægðar af salernum á almenningsstöðum kom í ljós að tæp 52% voru andvíg því að kynjamerkingar væru fjarlægðar af almenningssalernum. Einungis 21,4% Íslendinga kváðust vera fylgjandi og þar af um helmingur mjög fylgjandi.
Spurt var: Almennt séð, hversu fylgjandi eða andvíg(ur) ertu því að merkingar fyrir kyn verði fjarlægðar af salernum á almenningsstöðum?
Svarmöguleikar voru: Mjög andvíg(ur); Frekar andvíg(ur); Hvorki nér; Frekar fylgjandi; Mjög fylgjandi; Veit ekki/vil ekki svara.
Samtals tóku 97% afstöðu til spurningarinnar
Munur eftir lýðfræðihópum
Nokkuð mikill munur var á afstöðu hópa eftir lýðfræðihópum. Yngri aldurshópar voru líklegri en eldri aldurshópar til að vera fylgjandi því að kynjamerkingar væru fjarlægðar af almenningssalernum en 33,6% fólks á aldrinum 18-29 ára kváðust fylgjandi á meðan 9,6% fólks 68 ára og eldri voru fylgjandi. Athygli vekur að námsmenn voru áberandi líklegri til að vera fylgjandi en aðrir hópar en 44,1% þeirra kváðust fylgjandi og 26,8% andvíg. Fólk búsett á höfuðborgarsvæðinu (24,3%) reyndist jafnframt líklegra til að vera fylgjandi heldur en fólk á landsbyggðinni (16,2%).
Þegar afstaða er skoðuð eftir stjórnmálaflokkum sést að stuðningsfólk Pírata er lang líklegast til að vera fylgjandi (44%). Stuðningsfólk Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins eru áberandi líklegust til að vera andvíg en einungis 9% Framsóknarmanna og 11,5% Sjálfstæðismanna reyndust fylgjandi því að merkingar fyrir kyn væru fjarlægar af salernum á almenningsstöðum.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 905 einstaklingar, 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 13. til 19. september 2016
Þróun milli mælinga:
Ekki var spurt um traust til Landsdóms í fyrri mælingum.