Niðurstöður farsímakönnunar MMR benda til þess að snjallsímaeign Íslendinga hafi tekið stakkaskiptum. Hlutfall snjallsíma hefur aukist verulega og hefur hlutfall Íslendinga sem eiga snjallsíma til að mynda aukist um 10% á síðastliðnum 16 mánuðum. Þannig má sjá að í maí 2016 sögðust 86,7% eiga snjallsíma, borið saman við 76,9% í febrúar 2015.
Spurt var: "Er farsíminn þinn snjallsími?".
Svarmöguleikar voru þeir sem sjást á myndinni auk svarmöguleikans "Veit ekki/vil ekki svara".
Spurðir voru þeir sem voru í viðskiptum við fjarskiptafyrirtækin Alterna, Hringdu, NOVA, TAL/365 eða Vodafone.
Samtals voru 99,6% sem tóku afstöðu til spurningarinnar.
Myndin sýnir rúllandi meðaltal síðustu þriggja mánaða.
Munur á snjallsímaeign eftir hópum
Áhugavert er að rýna í snjallsímaeign Íslendinga eftir þjóðfélagshópum. Margir hópar komast nálægt því að verða mettaðir á meðan aðrir þjóðfélagshópar hafa haldið tryggð við hefðbundnari farsíma. Til að mynda sögðust allir námsmenn sem að tóku afstöðu til spurningarinnar eiga snjallsíma en aðeins 57% bænda og sjómanna sögðust eiga snjallsíma.
Sömuleiðis mátti sjá mun á snjallsímaeign eftir aldri. Þeir sem að voru 49 ára eða yngri voru mun líklegri til þess að eiga snallsíma en þeir sem að tilheyrðu eldri aldurshópum. Af þeim sem tilheyrðu aldurshópnum 18-49 ára og tóku afstöðu sögðust 96% eiga snjallsíma, borið saman við 74% þeirra sem voru á aldrinum 50-67 ára og 58% þeirra sem voru 68 ára og eldri.
Tekjur virðast einnig hafa áhrif á farsímaeign Íslendinga. Þeir sem að höfðu hærri tekjur voru líklegri til að eiga snjallsíma en þeir sem að höfðu lægri tekjur. Þannig sögðust 97% þeirra sem voru með milljón eða meira í heimilistekjur á mánuði eiga snjallsíma, borið saman við 77% þeirra sem voru með 400-599 þúsund krónur í heimilistekjur á mánuði.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Dagsetning framkvæmdar: Um 100 svörum safnað í hverri viku frá 1. febrúar 2015 til 31. maí 2016.
Heildar svarfjöldi: 7126
Svarfjöldi á nýjasta tímabili (mars til maí 2016): 1204
Notkun heimil svo lengi sem heimilda (vörumerkis MMR) er getið.
Allur réttur áskilinn: 2006 © Markaðs- og miðlarannsóknir ehf.