Þann 25. júní 2016 gengu Íslendingar í kjörklefana og kusu sinn sjötta forseta í sögu lýðveldisins. Guðni Th. Jóhannesson var réttkjörinn forseti Íslands og hlaut 39,1% atkvæða. Næst hlutskörpust reyndist Halla Tómasdóttir sem hlaut 27,9% atkvæða. Til gamans ákvað MMR að athuga hvern Íslendingar væru líklegastir til að kjósa sem forseta ef að haldin yrði önnur umferð í forsetakosningum þar sem valið stæði á milli tveggja efstu frambjóðendanna.
Samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar MMR sem framkvæmd var dagana 27. júní til 4 júlí. sögðust 52,1% að þau myndu líklegast kjósa Guðna Th. Jóhannesson og 47,9% að þau myndu líklegast kjósa Höllu Tómasdóttur ef haldin yrði önnur umferð í forsetakosninum þar sem valið stæði á milli tveggja efstu frambjóðendanna.
Spurt var: "Ef haldin væri önnur umferð í forsetakosningunum þar sem valið stæði milli tveggja efstu frambjóðendanna, sem voru Guðni Th. Jóhannesson og Halla Tómasdóttur, hvort þeirra myndir þú líklegast kjósa?".
Svarmöguleikar voru þeir sem sjást á myndinni auk svarmöguleikanna "Myndi skila auðu", "Myndi ekki mæta á kjörstað" og "Veit ekki/vil ekki svara".
Samtals voru 88,6% sem tóku afstöðu til spurningarinna, aðrir myndu skila auðu (2,6%), , myndu ekki mæta á kjörstað (1,7%) eða
voru ekki viss eða vildu ekki gefa upp afstöðu sína (7,1%).
Munur á afstöðu milli hópa
Greina mátti nokkrun mun á stuðningi við efstu forsetaframbjóðendurna eftir samfélagshópum og stjórnmálaskoðunum. Guðni Th. Jóhannesson hlaut meiri stuðning hjá þeim sem eldri voru á meðan Halla Tómasdóttir hlaut meiri stuðning hjá yngri hópum. Af þeim sem tilheyrðu aldurshópnum 50-67 ára og tóku afstöðu sögðust 61,4% styðja Guðna Th., borið saman við 46,6% þeirra sem voru á aldrinum 30-49 ára.
Þeir sem sögðust styðja Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkin voru líklegri til þess að styðja Höllu Tómasdóttur en þeir sem sögðust styðja Samfylkinguna, Vinstri-græn, Pírata og Bjarta framtíð. Af þeim sem studdu Sjálfstæðisflokkinn sögðust 75,7% líklegast kjósa Höllu Tómasdóttur, borið saman við 24,1% þeirr sem styðja Vinstri-græn.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 924 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 27. júní til 4. júlí 2016
Notkun heimil svo lengi sem heimilda (vörumerkis MMR) er getið.
Allur réttur áskilinn: 2006 © Markaðs- og miðlarannsóknir ehf.