Forseti Íslands

|

Dagana 26. maí til 1. júní kannaði MMR fylgi þeirra einstaklinga sem eru í framboði til kjörs forseta Íslands 25. júní næstkomandi. Niðurstöður leiddu í ljós nokkrar breytingar frá síðustu könnun MMR sem lauk þann 20. maí síðastliðinn. Guðni Th. Jóhannesson heldur töluverðri forystu með 56,6% fylgi sem er þó 9 prósentustigum minna fylgi en hann mældist með síðast. Fylgi Davíðs Oddssonar mældist nú 20,1% sem er aukning um 2 prósentustig. Fylgi Andra Snæs Magnasonar mældist 10,9% sem er óbreytt frá síðustu könnun. Stuðningur við Höllu Tómasdóttur eykst hins vegar og fer úr 2,2% í 6,9%. Stuðingur við Sturlu Jónsson mældist 2,2%. Aðrir frambjóðendur mældust samanlagt með 3,3% fylgi.

1605 03 1 President

Spurt var: "Eftirfarandi einstaklingar hafa lýst yfir framboði til embættis forseta Íslands. Hvern þeirra myndir þú kjósa ef kosið yrði til forseta í dag?".
Svarmöguleikar voru þeir sem sjást á myndinni auk svarmöguleikanna "skila auðu", "Myndi ekki kjósa", "Veit ekki/ óákveðin(n)" og "Vil ekki svara".
Þau sem ekki tóku afstöðu voru síðan spurð: "En hver yrði líklegast fyrir valinu?", þar sem svarmöguleikar voru hinir sömu og í fyrri spurningu. 
Samtals voru 86,6% sem tóku afstöðu, aðrir kváðust óákveðnir (7,3%), myndu skila auðu (2,0%), myndu ekki kjósa (0,5%) eða 
vildu ekki gefa upp afstöðu sína (3,6%). Myndin sýnir niðurstöðu könnunarinnar ásamt samanburði við síðustu kannanir þar á undan.

Munur á afstöðu milli hópa

Þegar fylgi fimm efstu frambjóðendanna var skoðað eftir samfélagshópum og stjórnmálaskoðunum kom í ljós að Guðni Th. Jóhannesson nýtur stuðnings nokkuð jafnt á flesta hópa. Á bilinu 53-63% kjósenda sögðust styðja Guðna óháð kyni, aldri og búsetu. Guðni naut hins vegar nokkuð minna fylgis meðal þeirra sem studdu Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk samanborið við stuðningsfólk annarra flokka. Davíð Oddson mældist aftur á móti með hlutfallslega aukinn stuðning meðal karla, þeirra sem eldri eru og stuðningsfólks Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Andri Snær Magnason hafði hlutfallslega mest fylgi meðal kvenna og þeirra sem yngri voru en nær engan stuðning meðal stuðningsfólks Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Stuðningur við Höllu Tómasdóttur reyndist áberandi mestur meðal stuðningsfólks Samfylkingarinnar. Stuðningur við Sturlu Jónsson mældist ekki áberandi hærri í einum hópi umfram annan. 

 

1605 03 2 President

 

Næsta val kjósenda

Svarendur voru einnig spurðir hver yrði líklegast fyrir valinu ef þeirra fyrsta val hefði ekki verið í framboði. Þar kom í ljós að flest stuðningsfólk Andra Snæs Magnasonar (61%) og Höllu Tómasdóttur (50%) sögðust kjósa Guðna Th. Jóhannesson ef þeirra fyrsta val væri ekki í framboði. Af stuðningsfólki Davíðs Oddssonar sögðust 27% kjósa Guðna Th. Jóhannesson og 21% Höllu Tómasdóttur ef Davíðs Oddson væri ekki í framboði. Þá voru 29% af stuðningsfólki Guðna Th. Jóhannessonar sem tilgreindu Andra Snæ Magnason sem sitt annað val og 21% nefndu Höllu Tómasdóttur sem sitt annað val. Aðrir frambjóðendur voru mun sjaldnar nefndir sem valkostur númer tvö fyrir komandi forsetakosningar.

1605 03 3 President

Spurt var: "Ef [nafn] væri ekki í framboði til embættis forseta Íslands, hvern myndir þú þá líklegast kjósa?".
Svarmöguleikar voru nöfn allra frambjóðenda auk: Myndi skila auðu, myndi ekki kjósa, óákveðin(n) og vil ekki svara.

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 963 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 26. maí til 1. júní 2016

Notkun heimil svo lengi sem heimilda (vörumerkis MMR) er getið.
Allur réttur áskilinn: 2006 © Markaðs- og miðlarannsóknir ehf.