Íslendingar virðast vera frekar trúir á að til sé fólk með skyggni-eða miðilsgáfur. Í könnun MMR á dögunum var spurt hvort Íslendingar tryðu því að til væri fólk sem hefði skyggni- eða miðilsgáfur og hvort fólk hefði sótt miðilsfundi. Í ljós kom að rúmlega helmingur þeirra sem tóku afstöðu eða 53,7% sögðust trúa að til væri fólk með skyggni- eða miðilsgáfur og tæpur þriðjungur svarenda eða (31,9%) sögðust hafa farið á miðilsfund.
Spurt var: Trúir þú að til sé fólk með skyggni-eða miðilsgáfu?
Svarmöguleikar voru: Já, Nei og Veit ekki/vil ekki svara
Samtals tóku 85,7% afstöðu til spurningarinnar, aðrir svöruðu veit ekki/vil ekki svara
Hlutfallstölur eru reiknaðar sem hlutfall af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar.
Nokkur munur milli hópa og trú þeirra á skyggni-eða miðilsgáfu
Nokkur munur reyndist á trú fólks á að til væru skyggni- eða miðilsgáfur eftir kyni, aldri, búsetu og stuðningi við stjórnmálaflokka. Þannig virðast konur frekar trúa að til sé fólk með skyggni-eða miðilsgáfur en karlar. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 69% kvenna trúa á slíkar gáfur borið saman við 40% karla. Þá kvaðst 70% fólks á aldrinum 68 ára og eldri trúa að til sé fólk með skyggni- eða miðilsgáfur borið saman 41% fólks undir þrítugu. Íbúar á landsbyggðinni sögðust frekar trúa á fólk með skyggni- eða miðilsgáfur (67%) en íbúar á höfuðborgarsvæðinu (46%). Þá reyndust þeir sem sögðust styðja Framsóknarflokkinn frekar trúa á fólk með skyggni-eða miðilsgáfur en stuðningsfólk annarra flokka. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu Framsóknarflokkinn sögðust 77% trúa á fólk með skyggni-eða miðilsgáfu, borið saman við 42% Sjálfstæðismanna og 40% Pírata.
Af þeim sem tóku afstöðu til spurningar um hvort þeir hefðu sótt miðilsfund voru 31,9% sem sögðust hafa farið á miðilsfund og 68,1% sögðust ekki hafa farið á slíkan fund.
Spurt var: Hefur þú sótt miðilsfund?
Svarmöguleikar voru: Já, Nei og Veit ekki/vil ekki svara
Samtals tóku 99,1% afstöðu til spurningarinnar, aðrir svöruðu veit ekki/vil ekki svara
Hlutfallstölur eru reiknaðar sem hlutfall af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar.
Nokkur munur milli hópa og hvort þeir höfðu sótt miðilsfund
Samkvæmt könnuninni var meðal annars munur á hvort fólk hafði sótt miðilsfund eftir kyni, aldri, og stuðningi við stjórnmálaflokka. Fleiri konur segjast hafa sótt miðilsfundi en karlar. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 44% kvenna hafa farið á miðilsfundi samanborið við 19% karla. Af þeim sem tóku afstöðu og voru 68 ára og eldri voru 49% sem sögðust hafa farið á miðilsfund samanborið við 38% svarenda á aldrinum 50-67 ára og 17% þeirra á aldrinum 18-29 ára. Af þeim sem tóku afstöðu og sögðust styðja Framsóknarflokkinn voru 39% sem sögðust hafa farið á miðilsfund samanborið við 20% stuðningsmanna Bjartrar framtíðar. Þá má að lokum sjá að af þeim sem trúa á til sé fólk með skyggni- eða miðilsgáfur voru 47% sem sögðust hafa sótt miðilsfundi samanborið við 14% þeirra sem ekki sögðust trúa á slíka hæfileika.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 967 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 1. til 7. desember 2015