Jólahefðir

|

MMR kannaði vinsældir jólasveinanna þrettán á dögunum. Af þeim félögunum er Kertasníkir sá langvinsælasti, en hann var uppáhalds jólasveinn 35% þeirra sem eiga sér uppáhalds jólasvein. Næst vinsælastur er Stúfur sem er uppáhald 24% þeirra sem eiga sér uppáhalds jólasvein og þar á eftir fylgir Hurðaskellir, sem er í uppáhaldi hjá 11% þeirra sem eiga sér uppáhalds jólasvein.

Vinsældir þriggja jólasveina; Askasleikis, Þvörusleikis og Pottaskefils, sem verður á ferðinni í nótt, mældust undir 1%. Athyglisvert er að bræðurnir þrír eiga það sameiginlegt að vera þekktastir fyrir að eta það sem afgangs verður í búsáhöldum. Til að vita hvort að slíkt háttarlag sé það sem geri þá óvinsælli en suma bræður sína verður að bíða frekari rannsókna. 

1512 jolasveinar01

Spurt var: Hver er þinn uppáhalds jólasveinn?
Svarmöguleikar voru: Stekkjastaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottaskefill, Askasleikir, Hurðaskellir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur, Kertasníkir og ég á engan uppáhalds jólasvein.
Samtals tóku 69,2% afstöðu til spurningarinnar, aðrir kváðust ekki eiga uppáhalds jólasvein.
Hlutfallstölur eru reiknaðar sem hlutfall af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar.

Þegar nánar er litið á vinsælustu jólasveinana vekur athygli að jólasveinarnir ná misvel til kynjanna. Sem dæmi má taka að Kertasníkir er miklu líklegri til að vera í uppáhaldi hjá konum, en 51% kvenna sögðu að Kertasníkir væri sinn uppáhalds jólasveinn, en einungis 21% karla. Á hinn bóginn virðast Hurðaskellir og mathákarnir Ketkrókur, Bjúgnakrækir og Skyrgámur ná betur til karlanna.

1512 jolasveinar02

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 967 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 1. til 7. desember 2015