MMR kannaði á dögunum tíðni gráturs á meðal Íslendinga. Þegar skoðuð voru svör þeirra Íslendinga sem tóku afstöðu í þessari könnun leiddu þau gögn í ljós að íslenskar konur virðast gráta meira en íslenskir karlar.
Af þeim sem tóku afstöðu til spurningar um hversu oft þeir höfðu grátið á síðastliðnum 12 mánuðum voru 72,3% svarenda sem sögðust hafa grátið en 27,7% svöruðu að þeir hefðu aldrei grátið á þessu tímabili.
Spurt var: „Hversu oft hefur þú grátið á síðastliðnum 12 mánuðum?“ Svarmöguleikar voru: „Aldrei“, „Einu sinni“, „Nokkrum sinnum yfir árið“, „Með nokkurra mánaða millibili“, „Einu sinni eða nokkrum sinnum í mánuði“ og „Vikulega eða oftar“.
Samtals tóku 93,8% afstöðu (aðrir svöruðu "Veit ekki/vil ekki svara").
Þegar litið var til tíðni gráturs eftir kyni og aldri þá sást greinilegur munur á hversu oft karlar og konur höfðu grátið á síðastliðnum 12 mánuðum. Hlutfall karla sem sagðist aldrei hafa grátið á tímabilinu var á bilinu 27% til 61%, hæst meðal karla 68 ára og eldri (61%) og lægst meðal karla 18-29 ára (4%). Hlutfall kvenna sem sagðist aldrei hafa grátið síðastliðna 12 mánuði reyndist mun lægra og var á bilinu 3% til 33%, hæst meðal kvenna 68 ára og eldri (33%) og lægst meðal kvenna 18-29 ára (3%). Þá kvaðst nokkuð hátt hlutfall kvenna á aldrinum 18-29 ára hafa grátið síðastliðna 12 mánuði, en 59% þessa hóps sagðist hafa grátið einu sinni í mánuði eða oftar.
Spurt var: „Hversu oft hefur þú grátið á síðastliðnum 12 mánuðum?“ Svarmöguleikar voru: „Aldrei“, „Einu sinni“, „Nokkrum sinnum yfir árið“, „Með nokkurra mánaða millibili“, „Einu sinni eða nokkrum sinnum í mánuði“ og „Vikulega eða oftar“.
Samtals tóku 93,8% afstöðu (aðrir svöruðu „Veit ekki/vil ekki svara“).
Ástæður þess að Íslendingar gráta
Svarendur voru beðnir um að tilgreina ástæður sem lágu að baki því að þeir höfðu grátið á síðastliðnum tólf mánuðum. Þar kom fram að óháð aldri voru 44% sem höfðu grátið þegar um var að ræða samhryggð með öðrum, þar á eftir voru 39% sem höfðu grátið vegna listaverka, bóka eða bíómynda og 36% sögðust hafa grátið vegna erfiðleika í fjölskyldunni. Það var ánægjulegt að sjá að 18% hafa grátið af hamingju á síðastliðnum tólf mánuðum. Þegar litið var til mismunandi ástæðna gráturs eftir aldri þá hafa þeir sem voru í yngsta aldurshópnum (18-29 ára) grátið mest (68%) yfir erfiðleikum í fjölskyldunni. Svarendur yfir þrítugu höfðu hins vager grátið mest yfir samhryggð með öðrum (á bilinu 38% til 49% hópanna yfir þrítugu nefndu þessa ástæðu).
Spurt var: „Hvaða ástæður voru fyrir því að þú grést á síðastliðnum tólf mánuðum? Veldu allla möguleika sem eiga við um þig“. Svarmöguleikarnir voru: „Listaverk, bók eða bíómynd“, „Erfiðleikar í fjölskyldunni“, „Samhryggð með öðrum“, „Óútskýrð sorg eða kvíði“, „Andlát ástvinar“, „Líkamlegur sársauki eða veikindi“, „Lágt sjálfsmat“, „Streita eða kvíði vegna vinnu“, „Hamingja“, „Félagsfælni“,„Dauði gæludýrs“,„Erfiðleikar í vinasambandi“,„Sambandsslit“ og „opin annað,hvað“. Spurðir voru þeir sem kváðust hafa grátið síðastliðna 12 mánuði og af þeim tóku 95,8% afstöðu (aðrir svöruðu „Veit ekki/vil ekki svara“).
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi:1021
Dagsetning framkvæmdar: 31. ágúst til 3. september