MMR kannaði á dögunum afstöðu almennings til þess hvaða stjórnmálaflokk sem er með þingmenn á Alþingi það myndi síst vilja hafa í ríkisstjórn. Flestir sögðust síst vilja hafa Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn eða 38,9%. 16,6% sögðust síst vilja hafa Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn, 15,1% sögðust síst vilja hafa Samfylkinguna, 13,6% sögðust síst vilja hafa Vinstri-græn. 12,3% sögðust síst vilja hafa Pírata og 3,6% sögðust síst vilja hafa Bjarta framtíð (miðað við þriggja mánaða rúllandi meðaltal).
Spurt var: Af þeim stjórnmálaflokkum sem nú eru með þingmenn á Alþingi, hvern þeirra myndir þú síst vilja hafa í ríkisstjórn?
Svarmöguleikar voru: Stjórnmálaflokkar með þingmenn á Alþingi hverju sinni og Veit ekki/vil ekki svara.
Samtals tóku 86,2% afstöðu til spurningarinnar í nýjustu mælingu.
Niðurstöðurnar byggja á rúllandi meðaltali síðustu þriggja mælinga.
Þróun mælinga yfir tíma
Frá því í febrúar 2014 hefur þeim fjölgað nokkuð sem sögðust síst vilja hafa Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn. Í febrúar 2014 sögðust 23,4% síst vilja hafa Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn, borið saman við 38,9% í febrúar 2015 (miðað við þriggja mánaða rúllandi meðaltal).
Spurningin hefur verið lögð fyrir mánaðarlega í könnunum MMR fá því í apríl 2010. Myndin hér að neðan sýnir þróun yfir tíma á rúllandi meðaltali þriggja mælinga.
Nokkur munur á afstöðu milli hópa
Ungt fólk vildi síður hafa Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn en þeir seru eldri eru. Af þeim sem tóku afstöðu og tilheyrðu yngsta aldurshópnum (18-29 ára) sögðust 44% síst vilja hafa Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn, borið saman við 34% þeirra sem voru 68 ára eða eldri.
Fleiri íbúar á höfuðborgarsvæðinu sögðust síst vilja hafa Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn (45%) en þeir sem búsettir voru á landsbyggðinni (28%). Þeir sem voru búsettir á landsbyggðinni vildu síður hafa Samfylkinguna í ríkisstjórn (21%) en þeir sem búsettir voru á höfuðborgarsvæðinu (12%).
Þeir sem sögðust styðja ríkisstjórnina voru síst hafa Samfylkinguna (36%) í ríkisstjórn en þeir sem ekki studdu ríkisstjórnina vildu síst hafa Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn (62%).
Nokkur munur var á afstöðu eftir stuðningi við stjórnmálaflokka. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu Framsóknarflokkinn sögðust 48% síst vilja hafa Samfylkinguna í ríkisstjórn. Af þeim sem studdu Sjálfstæðisflokkinn sögðust 31% síst vilja hafa Samfylkinguna í ríkisstjórn. Af þeim sem studdu Samfylkinguna vildu 77% síst vilja hafa Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn. Af þeim sem studdu Vinstri-græn vildu 62% síst hafa Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn. Af þeim sem studdu Bjarta framtíð vildu 68% síst hafa Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn og af þeim sem studdu Pírata vildu 59% síst hafa Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: Að jafnaði 950 einstaklingar á mánuði
Dagsetning framkvæmdar: Mánaðarlega frá og með apríl 2010.
Eldri kannanir sama efnis:
2011 nóvember: MMR könnun: Afstaða almennings til þess hvaða stjórnmálaflokk, sem nú á sitjandi þingmenn á Alþingi, það vill síst hafa í ríkisstjórn
Þróun milli mælinga:
Ekki var spurt um traust til Landsdóms í fyrri mælingum.