MMR kannaði fylgi stjórnmálaflokka fyrir komandi borgarstjórnarkosningar í Reykjavík.
Gagnaöflun vegna könnunarinnar fór fram á tímabilinu 26. til 28. maí 2014.
Samanlagt fylgi Samfylkingar og Bjartrar framtíðar mælist nú 54,9% borið saman við 53,5% frá síðustu könnun (sem stóð yfir dagana 20. til 23. maí síðastliðinn).
Samfylking bætir við sig fylgi og Framsóknarflokkur næði inn borgarfulltrúa.
Fylgi Samfylkingar mældist nú 32,7% borið saman við 29,5% í síðustu könnun. Fylgi Bjartrar framtíðar mældist nú 22,2% borið saman við 24,0% í síðustu könnun. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist nú 21,6% borið saman við 21,2% í síðustu könnun. Fylgi Pírata mældist nú 7,5% borið saman við 8,2% í síðustu könnun. Fylgi Framsóknarflokks og flugvallarvina mældist nú 6,8% borið saman við 5,3% í síðustu könnun. Fylgi Vinstri-grænna mældist nú 6,8% borið saman við 9,0% í síðustu könnun. Fylgi annarra flokka mældist undir 3%. Yrðu þetta niðurstöður kosninganna myndi Samfylkingin fá fimm borgarfulltrúa, Björt framtíð fjóra, Sjálfstæðisflokkur þrjá og Píratar, Vinstri græn og Framsóknarflokkur og flugvallarvinir einn borgarfulltrúa hvert framboð.
Lagðar voru allt að þrjár spurningar fyrir svarendur um stuðning þeirra við stjórnmálaflokka. Allir voru spurðir spurningar 1: „Ef kosið yrði til borgarstjórnar í Reykjavík í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?“. Þeir sem svöruðu „Veit ekki/óákveðin(n)“ við spurningu 1 voru því næst spurðir spurningar 2: „En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu?“. Ef aftur var svarað „Veit ekki/óákveðin(n)“ þá voru þátttakendur að lokum spurðir spurningar 3: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?“. Fjölda þeirra sem svaraði „einhvern hinna“ í spurningu 3 var skipt milli annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins í sama hlutfalli og fylgi þeirra var skv. spurningum 1 og 2. Samtals voru 85,3% sem gáfu upp afstöðu til flokka, aðrir kváðust óákveðnir (5,1%), myndu skila auðu (5,1%), myndu ekki kjósa (2,5%) eða vildu ekki gefa upp afstöðu sína (2,0%). Myndin sýnir niðurstöðu könnunar að viðbættum efri og neðri vikmörkum miðað við 95% öryggisbil ásamt samanburði við síðustu könnun þar á undan (birt 23. maí 2014).
Tengt efni:
2014 maí: MMR könnun: Samfylking og Björt framtíð með meirihluta í borginni
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Reykvíkingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.
Álitsgjafar MMR eru valdir úr Þjóðskrá þannig að þeir endurspegli lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar á hverjum tíma.
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 917 einstaklingar, 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 26. til 28. maí 2014