MMR kannaði á dögunum afstöðu almennings til þess að ferðamönnum (íslenskum sem erlendum) verði gert að kaupa „náttúrupassa" til að öðlast aðgengi að helstu ferðamannastöðum á Íslandi. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 47,2% vera fylgjandi því að ferðamönnum verði gert að kaupa náttúrupassa til að öðlast aðgengi að helstu ferðamannastöðum á Íslandi og 35,2% sögðust vera andvíg.
Spurt var: „Hversu fylgjandi eða andvíg(ur) ert þú að ferðamönnum (íslenskum sem erlendum) verði gert að kaupa „náttúrupassa" til að öðlast aðgengi að helstu ferðamannastöðum á Íslandi?"
Svarmöguleikar voru: Mjög andvíg(ur), frekar andvíg(ur), bæði og, frekar fylgjandi, mjög fylgjandi og veit ekki/vil ekki svara.
Samtals tóku 98,1% afstöðu til spurningarinnar.
Munur á afstöðu eftir aldri og stjórnmálaskoðunum
Þeir sem tilheyrðu elsta aldurshópnum voru líklegri til að vera hlynntir náttúrupassa en þeir sem yngri eru. Af þeim sem tóku afstöðu og tilheyrðu elsta aldurshópnum (68 ára og eldri) sögðust 59,8% vera hlynnt náttúrupassa, borið saman við 41,1% þeirra sem tilheyrðu yngsta aldurshópnum (18-29 ára).
Þeir sem sögðust styðja ríkisstjórnina voru líklegri til að vera hlynntir náttúrupassa en þeir ekki studdu ríkisstjórnina. Af þeim sem tóku afstöðu og sögðust styðja ríkisstjórnina voru 55,0% fylgjandi náttúrupassa, borið saman við 44,6% þeirra sem ekki sögðust styðja ríkisstjórnina.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 960 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 28. mars til 1. apríl 2014
Notkun heimil svo lengi sem heimilda (vörumerkis MMR) er getið.
Allur réttur áskilinn: 2006 © Markaðs- og miðlarannsóknir ehf.