MMR kannaði á dögunum hvaða áhrif almenningur teldi að frumvörp ríkisstjórnarinnar um lækkun húsnæðisskulda muni hafa á íslenskt efnahagslíf. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 44,5% telja að lækkun húsnæðisskulda muni hafa jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf, 20,8% töldu að lækkun húsnæðisskulda muni ekki hafa nein áhrif á íslenskt hagkerfi og 34,7% töldu að lækkun húsnæðisskulda muni hafa neikvæð áhrif á íslenskt hagkerfi.
Spurt var: „Á heildina lítið telur þú að frumvörp ríkisstjórnarinnar um lækkun húsnæðisskulda muni leiða til jákvæðra, engra eða neikvæðra áhrifa á íslenskt efnahagslíf?"
Svarmöguleikar voru: Mjög neikvæð áhrif, frekar neikvæð áhrif, engin áhrif, frekar jákvæð áhrif, mjög jákvæð áhrif og veit ekki/vil ekki svara.
Samtals tóku 80,9% afstöðu til spurningarinnar.
Mikill munur á afstöðu eftir stjórnmálaskoðunum
Meirihluti þeirra sem sögðust hafa kosið Framsóknar- eða Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningu töldu að frumvörp ríkisstjórnarinnar um lækkun húsnæðisskulda muni leiða til jákvæðra áhrifa á íslenskt efnahagslíf. Aftur á móti sagðist meirihluti þeirra sem kusu flokk í stjórnarandstöðu í síðustu kosningum telja að frumvörp ríkisstjórnarinnar um lækkun húsnæðisskulda muni hafa neikvæð eða engin áhrif á íslenskt efnahagslíf. Þannig töldu 70,3% þeirra sem kusu Framsóknarflokkinn að lækkun húsnæðisskulda muni hafa jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíft, 66,8% Sjálfstæðisfólks, 19,7% þeirra sem kusu bjarta framtíð, 13,5% þeirra sem kusu Pírata, 12,9% Samfylkingarfólks og 9,2% Vinstri-grænna töldu að lækkun húsnæðisskulda muni hafa jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 960 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 28. mars til 1. apríl 2014
Notkun heimil svo lengi sem heimilda (vörumerkis MMR) er getið.
Allur réttur áskilinn: 2006 © Markaðs- og miðlarannsóknir ehf.