Í könnun MMR á ánægju almennings með störf Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, kom í ljós að ánægja með störf forsetans hefur aukist töluvert í kjölfar niðurstaða í Icesave málinu. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 63,6% ánægð með störf forsetans nú, borið saman við 49,0% í síðustu mælingu (framkvæmd á tímabilinu 15-20 janúar 2013). Af þeim sem tóku afstöðu stögðust 19,6% vera óánægð með störf forsetans nú, borið saman við 25,4% í janúar.
Spurt var: Hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) ert þú með störf Ólafs Ragnars Grímssonar sem forseta Íslands? Svarmöguleikar voru: Mjög óánægð(ur), frekar óánægð(ur), hvorki ánægð(ur) né óánægð(ur), frekar ánægð(ur) og mjög ánægð(ur). Samtals tóku 95,8% afstöðu til spurningarinnar.
Ánægja með störf forsetans breytileg eftir aldri og stjórnmálaskoðunum
Munur var á afstöðu eftir aldri og stjórnmálaskoðun. Ánægja með störf forsetans minnkar með hækkandi aldri. Þannig voru 54,6% þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar í elsta aldurshópnum (50-67 ára) ánægð með störf forsetans borið saman við 67,7% á aldrinum 30-49 ára og 66,6% á aldrinum 18-29 ára.
Af þeim sem tóku afstöðu og sögðust styðja ríkisstjórnina voru 31,2% ángæð með störf forsetans, borið saman við 79,1% þeirra sem kváðust ekki styðja ríkisstjórnina.
Þegar ánægja með störf forsetans var skoðuðu út frá stuðningi við flokka kom í ljós að hlutfallslega flest þeirra sem sögðust styðja Framsóknarflokkinn voru ánægð með störf forsetans. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu Framsóknarflokkinn voru 91,8% ánægðir með störf forsetans. Hlutfallslega minnst ánægja var með störf forsetans á meðal þeirra sem styðja Vinstri græn. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu Vinstri græn sögðust 27,0% ánægð með störf forsetans.
Smelltu hér til að sjá þróun mælinga á myndrænan hátt
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar á aldrinum 18-67 ára valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 874 einstaklingar á aldrinum 18-67 ára
Dagsetning framkvæmdar: 31. janúar til 6. febrúar 2013
Eldri tilkynningar sama efnis:
Mars 2011: MMR könnun: ánægja með störf forsetans
Niðurstöðurnar á PDF:1302_tilkynning_forseti.pdf
Notkun heimil svo lengi sem heimilda (vörumerkis MMR) er getið.
Allur réttur áskilinn: 2006 © Markaðs- og miðlarannsóknir ehf.