MMR kannaði viðhorf Íslendinga til þess að ríkið seldi eignarhlut sinn í Landsbankanum, Landsvirkjun og Ríkisútvarpinu. Meirihluti var andvíg(ur) því að ríkið myndi selja eignarhlut sinn í fyrirtækjunum þremur. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 40,6% fylgjandi því að ríkið myndi selja eignarhlut sinn í Landsbankanum nú, borið saman við 45,6% í janúar 2012. 22,8% sögðust fylgjandi því að ríkið myndi selja eignarhlut sinn í Ríkisútvarpinu nú, borið saman við 24,9% í janúar 2012. Aðeins voru 14,7% fylgjandi því að ríkið myndi selja eignarhlut sinn í Landsvirkjun nú, borið saman við 19,6% í fyrra.
Spurt var: „Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) því að ríkið selji eignahlut sinn í eftirfarandi fyrirtækjum? – Landsbankinn/Landsvirkjun/Ríkisútvarpinu“
Svarmöguleikar voru: „Mjög andvíg(ur)“, „Frekar andvíg(ur)“, „Frekar fylgjandi“ og „Mjög fylgjandi“.
Samtals tóku 76,8% afstöðu til Landsbankans, 78,1% til Landsvirkjunar og 80,3% til Ríkisútvarpsins.
Þeir sem styðja ríkisstjórnina vilja síður einkavæða ríkisfyrirtæki.
Þrátt fyrir að meirihluti væri andvígur einkavæðingu ríkisfyrirtækja var viðhorf breytilegt á milli hópa. Ber þar helst að nefna að hlutfallslega færri þeirra sem styðja ríkisstjórnina sögðust vilja einkavæða ríkisfyrirtæki en þeir ekki styðja ríkisstjórnina. Af þeim sem tóku afstöðu og styðja ríkisstjórnina sögðust 29,6% vilja einkavæða Landsbankann, borið saman við 47,7% þeirra sem ekki styðja ríkisstjórnina. 10,0% þeirra sem styðja ríkisstjórnina vildu einkavæða ríkisútvarpið, borið saman við 31,1% þeirra sem ekki styðja ríkisstjórnina. Aðeins vildu 6,5% þeirra sem styðja ríkisstjórnina einkavæða Landsvirkjun borið saman við 19,6% þeirra sem ekki styðja ríkisstjórnina.
Þegar viðhorf er skoðað eftir stuðningi við flokka vilja hlutfallslega flestir þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn einkavæða en fæstir meðal Vinstri grænna. Af þeim sem tóku afstöðu og styðja Sjálfsstæðisflokkinn sögðust 58,5% vilja einkavæða Landsbankann, 33,1% sögðust fylgjandi sölu ríkis á eignarhlut sínum í Ríkisútvarpinu og 25,6% sögðust fylgjandi einkavæðinu Landsvirkjunar.
Viðhorf til einkavæðingar Landsbankans breytilegt eftir aldri og búsetu.
Hlutfall þeirra sem eru fylgjandi einkavæðingu Landsbankans dregast saman með auknum aldri. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 30,6% þeirra sem voru í elsta aldurshópnum (50-67 ára) vera fylgjandi sölu ríkis á eignarhlut sínum í Landsbankanum, borið saman við 45,3% í aldurshópnum 30-49 ára og 46,5% í yngsta aldurshópnum (18-29 ára).
Hlutfallslega fleiri þeirra sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu sögðust fylgjandi sölu ríkis á eignarhlut sínum í landsbankanum en þeirra sem bjuggu á landsbyggðinni. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 45,8% þeirra sem bjuggu á höfðuborgarsvæðinu vera fylgjandi einkavæðingu Landsbankans borið saman við 32,6% þeirra sem bjuggu á landsbyggðinni.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar á aldrinum 18-67 ára valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 827 einstaklingar á aldrinum 18-67 ára
Dagsetning framkvæmdar: 15.-20. janúar 2013
Niðurstöðurnar á PDF:1301_sala_rikisfyrirtaekja.pdf
Notkun heimil svo lengi sem heimilda (vörumerkis MMR) er getið.
Allur réttur áskilinn: 2006 © Markaðs- og miðlarannsóknir ehf.