MMR kannaði ánægju fólks með niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga sem fram fór 20. október 2012. Af þeim sem tóku afstöðu voru 43,0% frekar eða mjög ánægð með niðurstöðurnar, 29,9% voru frekar eða mjög óánægð og 27,1% voru hvorki ánægð né óánægð.
Spurt var: „Ert þú ánægð(ur) eða óánægð(ur) með niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga?“ Svarmöguleikar voru: Mjög ánægður, frekar ánægður, bæði og, frekar ánægður, mjög ánægður, veit ekki og vil ekki svara. Niðurstöður sýna fjölda þeirra sem tók afstöðu. Hlutfall þeirra sem tók afstöðu til spurningarinnar var 79,9%, aðrir svöruðu veit ekki/vil ekki svara.
Viðhorf fólks til niðurstaða þjóðaratkvæðargreiðslunnar reyndist nokkuð breytilegt eftir hinum ýmsu þjóðfélagshópum. Ánægja með niðurstöðurnar jókst með hækkandi aldri en 37,0% þeirra sem tóku afstöðu og voru í yngsta aldurshópnum (18-29 ára) voru ánægð með niðustöðurnar borið saman við 48,5% í elsta aldurshópnum (50-67 ára).
Viðhorf til niðurstaða var einnig ólíkt eftir búsetu. Af þeim sem tóku afstöðu og voru búsett á höfuðborgarsvæðinu voru 49,4% ánægð með niðurstöðurnar borið saman við 32,0% þeirra sem búsett voru á landsbyggðinni.
Af þeim sem að tóku afstöðu voru 74,5% þeirra sem sögðust styðja ríkisstjórnina ánægð með niðurstöðurnar borið saman við 24,9% þeirra sem sögðust ekki styðja ríkisstjórnina. Ánægja með niðurstöðurnar var hlutfallslega lægst meðal þeirra sem sögðust styðja Framsóknarflokkinn (16,8%) og Sjálfsstæðisflokkinn (12,6%). Ánægja með niðurstöðurnar var hlutfallslega hæst á meðal þeirra sem sögðust styðja Samfylkinguna (85,0%), Dögun (75,8%) og Vinstri græna (73,2%).
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar á aldrinum 18-67 ára valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 879 einstaklingar á aldrinum 18-67 ára
Dagsetning framkvæmdar: 9.-13. nóvember 2012
Niðurstöðurnar á PDF:1211_mmr_kosning_stjornarskra.pdf
Notkun heimil svo lengi sem heimilda (vörumerkis MMR) er getið.
Allur réttur áskilinn: 2006 © Markaðs- og miðlarannsóknir ehf.