MMR kannaði afstöðu fólks til þeirra spurninga sem til stóð að leggja fyrir kjósendur í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur Stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd. Í ljós kom að tveir þriðju hlutar þeirra sem tóku afstöðu (66,1%) vildu að tillögur Stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
Þá kom í ljós að stuðningsfólk ríkisstjórnarinnar er nær allt (95,2%) hlynnt tillögum Stjórnlagaráðs og tæplega helmingur andstæðinga ríkisstjórnarinnar að auki (48,0%). Stuðningur við tillögurnar mældist minnstur meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins en rúmur fjórðungur þeirra (27,1%) kvaðst hlynntur tillögunum. Næstminnsta fylgið var meðal framsóknarmanna, þar sem um 38,5% voru hlynntir tillögunum. Stuðningur í öðrum flokkum mældist yfir 90 prósent. Þá mældist stuðningur við tillögurnar 77,1% meðal þeirra sem sögðust óvissir í afstöðu sinni til stjórnmálaflokka eða sögðust skila auðu væri gengið til kosninga nú.
Deildar meiningar um ákvæði um þjóðkirkju en annars lítill pólitískur ágreiningur um efnislegt innihald í öðrum atriðum
Í könnuninni var spurt efnislega um nýja stjórnarskrá í samræmi við þingsályktunartillögu Alþingis um hvort lýsa eigi náttúruauðlindum sem þjóðareign, hvort ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga skuli óbreytt frá því sem nú er og hvort heimila eigi persónukjör í kosningum til Alþingis í meira mæli en nú er. Einnig var spurt um ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt og hvort í stjórnarskrá eigi að vera ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem tóku afstöðu vill að náttúruauðlindir verði lýstar sem þjóðareign eða 86,0%. Minnsti stuðningurinn við þetta ákvæði reyndist meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins eða um 71,9% prósent.
Tæpur helmingur aðspurðra, 44,6%, vildu halda óbreyttu ákvæði um þjóðkirkju. Meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna vildi hins vegar halda þessu ákvæði óbreyttu, 56,8% sjálfstæðismanna og 52,3% prósent framsóknarmanna.
Þegar spurt var um persónukjör kom í ljós að 84,2 prósent landsmanna aðhyllast persónukjör í Alþingiskosningum, þá í meira mæli en nú er. Jafnframt vilja þrír af hverjum fjórum landsmönnum (77,4%) að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar af landinu vegi jafnt. Þá voru 86,9% þeirra sem tóku afstöðu sem vildu að í nýrri stjórnarskrá Íslands væri ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Fjöldi sem tók afstöðu til spurninga:
Vilt þú að tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá: 59,4%
Í nýrri stjórnarskrá Íslands verði...náttúruauðlindir lýstar þjóðareign: 76,0%
Í nýrri stjórnarskrá Íslands verði...ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga óbreytt frá því sem nú er: 70,5%
Í nýrri stjórnarskrá Íslands verði...persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er: 76,3%
Í nýrri stjórnarskrá Íslands verði...ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt: 77,1%
Í nýrri stjórnarskrá Íslands verði...ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðar-atkvæðagreiðslu: 74,0%
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar á aldrinum 18-80 ára valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 870 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 12.-17. apríl 2012
Eldri kannanir sama efnis:
September 2011: MMR könnun um afstöðu til þjóðaratkvæðagreiðslu um Stjórnlagaráðsfrumvarp
September 2011: MMR könnun um aðkomu Alþingis að stjórnlagafrumvarpi
September 2011: MMR könnun um kynningu frumvarps stjórnlagaráðs
Nóvember 2010: MMR könnun um þátttöku í kostningum til stjórnlagaráðs
Niðurstöðurnar á PDF: 1204_mmr_tilkynning_stjornarskra.pdf
Notkun heimil svo lengi sem heimilda (vörumerkis MMR) er getið.
Allur réttur áskilinn: 2006 © Markaðs- og miðlarannsóknir ehf.