Jólahefðir Matarvenjur

|

MMR kannaði hvað fólk ætlaði að borða á jóladag þessi jólin. Greinilegt var að Íslendingar ætla ekki að bregða út af venjunni þessi jólin frekar en endranær því hangikjötsilmur verður ríkjandi á flestum heimilum landsmanna á jóladag. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust þrír af hverjum fjórum ætla að borða hangikjöt á jóladag þetta árið eða 72,4% en var 72,7% í desember 2010.

Önnur svör skiptust þannig að 7,8% ætla að borða hamborgarhrygg nú en var 8,0% fyrir ári síðan og 4,0% ætla að borða kalkún nú en var 3,5% í desember 2010. Nú sögðust 15,9% ætla að borða eitthvað annað en hangikjöt, hamborgarhrygg eða kalkún á jóladag en var 15,8% fyrir ári síðan. Að ofansögðu sést að breytingar milli ára eru óverulegar.

1112_joladagur_1

Lítill munur milli hópa á því hvað fólk borðar á jóladag

Samkvæmt könnuninni var mjög lítill munur á því hvað fólk ætlaði að borða eftir hópum, helst var þó munur eftir búsetu, tekjum og hvað fólk ætlaði að borða á aðfangadag. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 78,1% þeirra sem búsettir voru á landsbyggðinni að þeir ætluðu að borða hangikjöt á jóladag borið saman við 68,6% höfuðborgarbúa. Lítill munur var eftir tekjuhópum en þó sögðust 66,6% þeirra sem voru með heimilistekjur á bilinu 400-599 þúsund á mánuði að þeir ætluðu að borða hangikjöt á jóladag borið saman við 76,0% þeirra sem voru með 600-799 þúsund í heimilistekjur á mánuði. Þá virðist hangikjötið ríkjandi sem jólamatur hjá flestum óháð því sem þeir hyggjast borða á aðfangadag. Þannig voru til dæmis ríflega þrír af hverjum fjórum þeirra sem ætluðu að borða hamborgarhrygg á aðfangadag eða 78,7% og 78,0% þeirra sem ætluðu að borða rjúpur sögðust ætla að borða hangikjöt á jóladag. Hefðirnar virðast því ráða ríkjum hjá flestum yfir jólin.

1112_joladagur_2

 

Niðurstöðurnar í heild:
1112_tilkynning_joladagur.pdf