MMR kannaði vilja fólks til að kjósa Besta flokkinn ef hann byði fram í næstu Alþingiskosningum. Af þeim sem tóku afstöðu sögðu 21,4% landsmanna að það kæmi til greina að þeir myndu kjósa Besta flokkinn ef hann byði fram í næstu Alþingiskosningum.
Þetta er breyting frá könnun MMR fyrir Viðskiptablaðið í mars á þessu ári, en þá sögðu 25,5% að það kæmi til greina að kjósa Besta flokkinn ef hann byði fram til Alþingis.
Fylgi við Besta flokkinn breytilegt eftir hópum
Samkvæmt könnuninni var nokkur munur á því hvort kæmi til greina að kjósa Besta flokkinn ef hann byði fram í næstu Alþingiskosningum milli hópa. Af þeim sem tóku afstöðu sögðu fleiri karlar að það kæmi til greina að kjósa Besta flokkinn heldur en konur eða 24,8% karla borið saman við 17,6% kvenna. Yngri einstaklingar voru einnig hlynntari framboði Besta flokksins og er það í samræmi við fyrri könnun frá því í mars á þessu ári þó fylgi þeirra hafi minnkað nokkuð. Nú sögðu 39,0% yngsta aldurshópsins það koma til greina borið saman við 52,4% þá.
Fjöldi þeirra sem sagði það koma til greina að kjósa Besta flokkinn minnkar með hækkandi tekjum. Þannig voru 33,5% þeirra sem kváðust hafa fjölskyldutekjur undir 250.000 krónum sem sögðu það koma til greina að kjósa Besta flokkinn í Alþingiskosningum samanborið við 14,7% þeirra sem sögðust hafa 800.000 krónur eða meira í heimilistekjur.
Ef litið er til stuðnings við ríkisstjórnina og einstaka stjórnmálaflokka kemur í ljós að 34,3% þeirra sem sögðust styðja ríkisstjórnina myndu íhuga það að kjósa Besta flokkinn ef hann byði fram borið saman við 14,9% þeirra sem sögðust ekki styðja ríkisstjórnina. Ef litið er til stuðnings við einstaka flokka sést að þeir sem sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn eru síst líklegir til að íhuga það að kjósa Besta flokkinn eða 5,0% borið saman við 28,2% Samfylkingarfólks og 28,1% stuðningsmanna Vinstri grænna.
Niðurstöðurnar í heild: 1109_tilkynning_bestiflo.pdf