MMR kannaði afstöðu meðlima þjóðkirkjunnar til þess hvort þeir hefðu hugsað um að segja sig úr þjóðkirkjunni á síðastliðnum mánuðum. Af þeim sem tóku afstöðu hafði rúmlega þriðjungur eða 34,4% hugleitt að segja sig úr henni á síðastliðnum mánuðum en 65,6% sögðust ekki hafa hugsað um það.
Fjöldi þeirra sem hafði hugsað um að segja sig úr þjóðkirkjunni er nokkuð breytilegur eftir hinum ýmsu þjóðfélagshópum. Þannig minnkar til að mynda fjöldi þeirra sem sagðist hafa hugsað um að segja sig úr þjóðkirkjunni með hækkandi aldri, en 39,9% þeirra sem tóku afstöðu og voru í yngsta aldurshópnum (18-29 ára) sögðust hafa hugleitt það borið saman við 25,5% í elsta aldurshópnum (50-67 ára).
Fleiri karlar en konur höfðu hugsað um að segja sig úr þjóðkirkjunni á síðastliðnum mánuðum eða 36,9% karla borið saman við 32,1% kvenna. Að sama skapi voru þeir fleiri sem höfðu hugsað um að segja sig úr þjóðkirkjunni meðal höfuðborgarbúa eða 37,4% borið saman við 30,0% þeirra sem bjuggu á landsbyggðinni. Það sama átti við um stuðningsfólk ríkisstjórnarinnar en 39,5% þeirra sem studdu ríkisstjórnina höfðu hugsað um að segja sig úr þjóðkirkjunni borið saman við 31,2% þeirra sem studdu ekki ríkisstjórnina.
Niðurstöðurnar í heild: 1107_tilkynning_kirkjan.pdf