MMR kannaði hvort fólk væri almennt fylgjandi eða andvígt því að höfðað hafi verið sakamál fyrir landsdómi gegn Geir H. Haarde. Mikill meirihluti þeirra sem tók afstöðu kváðust andvígir ákærunni gegn Geir eða 65,7%. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 48,3% vera mjög andvígir, 17,3% frekar andvígir, 14,6% frekar fylgjandi og 19,7% sögðust mjög fylgjandi að höfðað hafi verið sakamál gegn Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra vegna refsiverðrar háttsemi hans í embættisfærslu sinni á árinu 2008.
Mikill munur reyndist á afstöðu fólks eftir því hvar það stendur í stjórnmálum. Andstaðan reyndist mest á meðal Sjálfstæðismanna, en 91,7% þeirra sem tóku afstöðu og myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, ef kosið yrði í dag, sögðust frekar eða mjög andvígir því að höfðað hefði verið sakamál fyrir landsdómi gegn fyrrverandi oddvita Sjálfstæðisflokksins. Aftur á móti voru 73,4% þeirra sem tóku afstöðu og myndu kjósa Vinstri-græna, ef gengið væri til kosninga í dag, fylgjandi því að höfðað hafði verið sakamál gegn Geir H. Haarde.
Niðurstöður könnunarinnar sýna mikla breytingu á afstöðu almennings frá því skömmu fyrir ákvörðun Alþingis um að lögsækja Geir H. Haarde í september 2010. Í könnun MMR sem birt var þann 17. september 2010 voru yfir 60% þeirra sem tóku afstöðu sem sögðust fylgjandi því að höfða bæri sakamál fyrir landsdómi gegn fyrrverandi ráðherrunum Árna M. Matthiesen (66,3%), Geir H. Haarde (64,2%) og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur (60,4%). Nokkuð færri eða 51,8% sögðust þá fylgjandi því að höfða bæri sakamál fyrir landsdómi gegn Björgvin G. Sigurðssyni fyrrverandi viðskiptaráðherra.
Niðurstöðurnar í heild: 1106_tilkynning_landsdomur.pdf