SildÍ könnun MMR á afstöðu almennings til ráðstöfunar fiskveiðiheimilda kom í ljós að enn er mikill stuðningur við hugmyndir sem halla í þá átt að ríkið afturkalli fiskveiðiheimildir, fari sjálft með eignarhald eða innheimti leigu fyrir afnotarétt sem endurspegli markaðsverðmæti kvótans. Samskonar könnun var framkvæmd  af MMR í febrúar á þessu ári og voru niðurstöður beggja kannana mjög áþekkar nema nú voru töluvert fleiri sem tóku afstöðu til spurninganna (sjá meðfylgjandi töflu).

 

1105_kvoti_1

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 71,4% vera hlynntir því að þeir sem fengju úthlutað kvóta ættu að greiða leigu til ríkisins sem endurspeglar markaðsverðmæti kvótans borið saman við 69,7% í síðustu könnun. Nú voru 67,5% hlynntir því að kvótinn væri í eigu ríkisins borið saman við 66,6% í síðustu könnun og 63,5% sögðust nú vera hlynntir því  að stjórnvöld afturkölluðu gildandi kvóta og úthlutuðu að nýju með breyttum reglum borið saman við 64,9% í síðustu könnun.

 

Þá kváðust 20,8% þeirra sem tóku afstöðu vera hlynntir því að handhafar kvóta greiddu eingöngu leigu fyrir afnotin sem næmi rekstrarkostnaði þeirra ríkisstofnana sem þjónusta sjávarútgerðina borið saman við  17,4% í síðustu könnun. Nú töldu 15,6% að núverandi handhafar kvótans ættu að fá að halda honum áfram óskertum borið saman við 15,1% í síðustu könnun. Nokkuð fleiri sögðust nú vera hlynntir því að þeir sem fengju úthlutað kvóta ættu að fá að ráðstafa honum að vild, þar með talið selja, leigja og veðsetja eða 10,1% borið saman við 7,4% í síðustu könnun.

Þá sögðust 30,9% þeirra sem tóku afstöðu vera sammála því að hagsmunir núverandi handhafa kvótans og þjóðarinnar í heild væru sameiginlegir borið saman við 31,4% í síðustu könnun.

 

1105_kvoti_2

Munur á afstöðu eftir stuðningi við stjórnmálaflokka:

Líkt og í síðustu könnun frá febrúar 2011 reyndist nokkur munur á afstöðu svarenda til ráðstöfunar fiskveiðiheimilda eftir stuðningi þeirra við stjórnmálaflokka. Til að mynda voru 94,8% Samfylkingarfólks og 86,2% Vinstri grænna hlynnt því að stjórnvöld afturkölluðu gildandi fiskveiðiheimildir og úthlutuðu þeim að nýju með breyttum reglum, samanborið við 35,6% Sjálfstæðismanna og 55,3% Framsóknarmanna. Stuðningur við að þeir sem fengju úthlutað kvóta ættu að fá að ráðstafa honum að vild reyndist aftur á móti lítill meðal stuðningsmanna allra flokka. En 17,0% Sjálfstæðismanna, 13,5% Framsóknarmanna, 3,9% Samfylkingarfólks og 2,6% Vinstri grænna sögðust hlynntir því að þeir sem fengju úthlutað kvóta ættu að fá að ráðstafa honum að vild, þar með talið selja, leigja og veðsetja.

 

1105_kvoti_3

Niðurstöðurnar í heild:
1105_tilkynning_fiskveidiheimildir.pdf