Enginn annar fjölmiðill sem spurt var um í könnun MMR um traust almennings til fjölmiðla nýtur viðlíka trausts og fréttastofa RÚV. Alls sögðust 78,5% aðspurðra bera mikið traust til fréttastofunnar og tæp 5% sögðust bera lítið traust til hennar.
Þrátt fyrir að verulega dragi úr trausti til Morgunblaðsins heldur blaðið engu að síður stöðu sinni sem það dagblað sem flestir segjast bera mikið traust til. Núna sögðust 46,4% svarenda bera mikið traust til Morgunblaðsins samanborið við 56,9% í september síðastliðnum. Fréttablaðið nýtur mikils trausts meðal 34,8% svarenda. Að sama skapi fjölgar töluvert í hópi þeirra sem segjast bera lítið traust til Morgunblaðsins en tæpur fjórðungur kveðst nú bera lítið traust til þess. Það er nærri því tvöföldun frá könnun MMR í september 2009 þegar 13,2% sögðust bera lítið traust til blaðsins. Meðal netfréttamiðla nýtur Mbl.is mests trausts en 51,7% segjast bera mikið traust til Mbl.is. Áfram dregur úr fjölda þeirra sem segjast bera lítið traust til DV en 56,1% segjast nú bera lítið traust til blaðsins, samanborið við 70-81% eins og verið hefur í síðustu mælingum MMR.
Niðurstöðurnar í heild: 1004_tilkynning_traustfjmidlar.pdf