
Af þeim Svíum sem hafa skoðun á málinu eru 79% sem telja að Íslendingum beri annaðhvort að endurgreiða Bretum og Hollendingum að hluta til eða alls ekki.
MMR kannaði afstöðu almennings í Svíþjóð til kröfu Breta og Hollendinga á hendur íslenskum stjórnvöldum vegna Icesave skuldbindinganna. Séu niðurstöðurnar skoðaðar í heild kemur í ljós að 9% Svía töldu rétt að Íslendingum yrði gert að endurgreiða Bretum og Hollendingum að fullu vegna útborgunar yfirvalda í þessum löndum til innistæðueigenda vegna gjaldþrota íslenskra banka. Á hinn bóginn voru 12% sem svöruðu því til að Íslendingar ættu að neita því að endurgreiða Bretum og Hollendingum á meðan 24% töldu að kostnaður vegna útborgana til innistæðueigenda ætti að deilast milli landanna þriggja. Nokkur meirihluti svarenda, eða 55%, sögðust ekki hafa skoðun á málinu.
Séu niðurstöður skoðaðar eingöngu fyrir þá sem gáfu upp tiltekna afstöðu í málinu (sem voru 45% svarenda) kemur í ljós að 21% þeirra töldu að Íslendingum bæri einum að axla kostnaðinn vegna útborgunar til innistæðueigenda en 79% telja annað hvort að deila beri kostnaðinum milli landanna þriggja (53%) eða þá að Íslendingar eigi að neita að endurgreiða Bretum og Hollendingum (26%).
Niðurstöðurnar í heild: 1002_tilkynning_Icesave_SE.pdf