Fylgiskannanir MMR í aðdraganda nýliðinna Alþingiskosninga gáfu mjög góða mynd af þeim fylgisbreytingum sem voru að eiga sér stað og reyndust þegar upp var staðið gefa ágæta vísbendingu um hvert framhaldið gæti orðið fram á kjördag.
Síðustu sjö dagana fyrir kosningar birti MMR niðurstöður úr þremur fylgiskönnunum og lauk þeirri síðustu um miðjan dag fimmtudaginn 23. september. Með tilliti til þriggja síðustu kannananna virtist greinilegt að einkum Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, en einnig Viðreisn, hefðu náð ákveðnu forskoti. Um leið mátti sjá hvernig dró úr stuðningi við Vinstri-græn, Samfylkingu, Pírata og Sósíalista. Stuðningur við Flokk fólksins og Miðflokkinn hafði staðið nokkuð í stað.
Segja kannanir til um fylgi á kjördag?
Reynslan úr fyrri kosningum hefur oft sýnt að sú sveifla eða stöðnun sem mælist á fylgi flokkanna í síðustu könnunum fyrir kosningar eigi það til að halda áfram fram á kjördag. En auðvitað eru á því undantekningar. Til dæmis varðandi flokka sem einkum njóta stuðnings meðal hópa sem eru ólíklegri til að mæta á kjörstað eða eins og við sáum í síðustu tvennum kosningum þar sem formenn stjórnmálaflokka höfðu greinilega heillað kjósendur með tilfinningaríkri framkomu í sjónvarpsviðtölum á lokasprettinum.
Fellibylur á leiðinni
Þegar við veltum fyrir okkur þeim mun sem er á niðurstöðum kannana annars vegar og kosninga hins vegar er við hæfi að grípa til samlíkingar við störf veðurfræðinga. Veðurfræðingar gefa annarsvegar út veðurlýsingar sem segja til um hvernig veðrið var og hins vegar búa þeir til veðurspár sem segja til um hvernig veðrið verður líklega í framtíðinni.
Líkt og veðurlýsing veðurfræðingsins er ekki veðurspá, þá eru fylgiskannanir ekki kosningaspár heldur segja þær eingöngu til um hvernig fylgið var á tilteknum tímapunkti. Það að ætlast til að fylgiskönnun gefi alltaf hárrétta mynd af fylgi sem flokkar fá á kjördag er því eins og að ætlast til þess að veðurlýsing frá fimmtudegi segi til um hvernig veðrið verði á laugardegi, vitandi að það kemur fellibylur í millitíðinni.
Fellibylur? Já fellibylur af því það sem gerist frá því að síðustu kannanir eru teknar og þar til kosningarnar fara fram er engu líkara. Þessa síðustu daga hringsnýst samfélagið nefnilega vegna tilrauna stjórnmálaflokkanna til að hafa áhrif á kjósendur. Það ætti því alls ekki að koma á óvart að breytingar eigi sér stað.
Hvað gerðist?
Heilt yfir má segja að þrátt fyrir sveiflur á fylgi flokkanna í aðdraganda kosninganna þá hafi síðasta könnun MMR fyrir kosningar engu að síður gefið ágæta vísbendingu um hvað kom upp úr kjörkössunum. Þegar upp var staðið munaði að meðaltali 1,6 prósentustigum á atkvæðahlutfalli flokkanna í könnuninni og kosningunum. Að mati undirritaðs var þessi mismunur í flestu tilliti viðbúinn:
- Sósíalistar höfðu tapað fylgi úr tæpum 9% í 5% eftir því sem leið á vikuna. Þeir enduðu kosninguna svo með 4% atkvæða. Þetta er mynstur sem við höfum séð oft áður í aðdraganda kosninga, þ.e. að róttæk framboð mælist með tiltölulega hátt fylgi sem dregur svo af þegar nær dregur kosningum. T.d. fyrir kosningarnar 2009 og 2017 þegar Vinstri græn (þá lengst til vinstri) mældust með allt að 25-30% fylgi en enduðu í 17-20%, kosningarnar 2013 þegar Framsóknarflokkurinn (þá uppreisnarflokkur gegn Icesave) mældist með allt að 33% fylgi en fékk að endanum 24% og í kosningunum 2016 þegar Píratar mældust með yfir 30% fylgi en fengu 15%.
- Þá er að sjá að eftir því sem kvarnast hafi úr fylgi Sósíalista þá hafi Flokki fólksins vaxið ásmegin – enda málefnaáherslur flokkanna líkar.
- Fylgi Samfylkingarinnar og Pírata hafði verið fallandi og hélt áfram að falla fram á kjördag.
- Fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafði verið rísandi og hélt áfram að vaxa fram á kjördag.
- Fylgi Miðflokksins hafði staðið í stað og breyttist lítið fram að kosningum.
Punkturinn er sá að þessar breytingar voru í mörgu tilliti viðbúnar. Það sem var ekki jafn fyrirsjáanlegt voru fylgisbreytingar Viðreisnar og Vinstri-grænna.
Viðreisn hafði að jafnaði mælst með 10,6% fylgi síðan í ágúst og hafði risið í 12% fylgi tveimur sólarhringum fyrir kosningar. Það að flokkurinn hafi ekki fengið nema 8% upp úr kjörkössunum þýðir að það hefur eitthvað óvænt gerst. Nærtækasta skýringin virðist vera að rúmum sólarhring fyrir kosningar voru birt ummæli Seðlabankastjóra þess efnis að evruhugmyndir Viðreisnar, eitt helsta stefnumál flokksins, væru “vanhugsaðar” og “ómögulegar”. Að teknu tilliti til þess að Seðlabankinn er sú stofnun sem nýtur hvað mests trausts meðal almennings, að Háskólunum tveimur og Lögreglunni undanskildum (samkvæmt traustskönnunum MMR), þá verður að telja líklegt að þessar fréttir hafi haft áhrif og hrundið af stað fylgiskapli sem á endanum leiddi til óvæntrar fylgisaukningar Vinstri-grænna.
Til glöggvunar sýna meðfylgjandi myndir þróun á fylgi flokkanna í þremur síðustu könnunum MMR ásamt úrslitum kosninganna. Myndirnar sýna skýrt og greinilegt ferli sem fylgi flokkanna fylgdi síðustu dagana fyrir kosningar nema hvað varðar Viðreisn, Flokk fólksins og Vinstri-græn eins og grein hefur verið gerð fyrir hér að ofan.
Höfundur er framkvæmdastjóri MMR og er með BA gráðu í Stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MSc gráðu í Rannsóknaraðferðum félagsvísinda (tölfræði) frá London School of Economics.